Sveitarfélögin fá samanlagt 33,1 milljarð króna vegna fasteignaskatta á þessu ári. Tekjur sveitarfélaganna vegna þessa námu 30,1 milljarði í fyrra og hækka því um ríflega 3 milljarða króna á milli ára eða um 10%.

Að stærstum hluta má rekja tekjuaukninguna til þess að í fyrra fór fram endurmat á fasteignamati á landinu öllu. Það þýddi að fasteignamatið hækkaði að meðaltali um 7,7% milli áranna 2014 og 2015. Til viðbótar þessu hækkuðu sum sveitarfélög álagningarprósentuna milli ára. Fasteignaskattar eru næststærsti tekjustofn sveitarfélaganna á eftir útsvarinu.

Viðskiptablaðið reiknaði fasteignaskatt af íbúðarhúsnæði á hvern íbúa. Yfir landið allt er meðaltalið 42.400 krónur á íbúa. Af sveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins greiða íbúar Reykjavíkur minnst eða 25.600 krónur hver, sem þó er töluverð hækkun frá í fyrra þegar fasteignaskattur á hvern borgarbúa var 23.300 krónur.  Íbúar Garðabæjar borga að meðaltali hæsta fasteignaskattinn af íbúðarhúsnæði, eða 39.600 hver.

Þegar sveitarfélög með meira en þrjú þúsund íbúa eru skoðuð kemur í ljós að íbúar Borgarbyggðar greiða hæsta skattinn, eða 73.000 hver. Þar á eftir koma íbúar Akureyrar en þar greiðir hver íbúi að meðaltali  60.500 krónur.

Auk fasteignaskatta greiða íbúar sveitarfélaga ýmis þjónustugjöld af íbúðarhúsnæði eins og fráveitugjald, vatnsgjald, lóðarleigu og sorphirðu- og  sorpeyðingargjald. Íbúar Vestmannaeyja borga hæsta sorphirðu- og sorpeyðingargjaldið 51.323 krónur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .