Besti fjárhagurinn er hjá þeim sveitarfélögum sem taka hlutfallslega minnst til sín í formi skattheimtu ef borin eru saman 12 stærstu sveitarfélög landsins. Reykjanesbær, Reykjavík og Hafnafjörður koma verst út úr greiningu Samtaka atvinnulífsins á fjármálum fyrirtækja meðan Akranes er í hópi með Garðabæ og Seltjarnarnesi þeirra sveitarfélaga sem koma best út.

Jafnframt sést að mesta ánægjan mælist með leik- og grunnskóla þeirra sveitarfélaga sem koma best út úr rekstrarsamanburðinum. Hlutfallslega lægsta skattheimtan er í Seltjarnarnesi, Garðabæ og Vestmannaeyjum, en Akureyri, Fjarðarbyggð og Reykjavík taka hlutfallslega mest til sín.

Ódýrast að búa í Garðabæ

Ódýrast er að búa í Garðabæ en dýrast að búa í Árborg, og munar ríflega 180 þúsund króna á ári milli þessara tveggja sveitarfélaga. Sveitarfélög taka til sín og ráðstafa um fimmtungi af öllum opinberum tekjum og um 14% opinberra skulda hvíla á sveitarfélögunum. Flest öll sveitarfélög hafa útsvarsprósentu sína í leyfilegu hámarki, en hún hefur nær tvöfaldast frá árinu 1993.

Þar af er ekki hægt að sjá að fjórðungur hækkunarinnar komi til vegna þess að sveitarfélögin hafa tekið yfir málefni frá ríkinu og hefur skattheimta sveitarfélaga á undanförnum árum vaxið töluvert umfram það sem réttlætist af auknum lögbundnum verkefnum sveitarfélaga.

Þannig hafa tekjurnar aukist um 296 milljarða á föstu verðlagi frá árinu 2011, en þar af hefur 170 milljörðum verið ráðstafað í aukinn launakostnað eða 57%. Á sama tíma hefur einungis 12% hinna auknu tekna skilað sér í bættri afkomu. Þó hefur hlutfall skulda af tekjum samstæðureikninga sveitarfélaga lækkað hratt en ríflega helmingurinn af því er tilkomið vegna vaxandi tekna.