Tekjur Nýherja á fyrsta ársfjórðungi jukust um 20% frá síðasta ári og nam heildarhagnaðurinn 71 milljón króna á tímabilinu. Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 38 milljónum á milli ára. Sala á vöru og þjónustu félagsins fór úr því að vera 3.332 milljónir króna á fyrsta ársfjórðungi ársins 2016 í 3.996 milljónir króna á sama tímabili á þessu ári, sem gerir eins og áður segir fimmtungsaukningu tekna milli ára.

EBITDA félagsins nam 242 milljónum króna en fyrstu þrjá mánuði ársins 2016 var hún 180 milljónir. Framlegðin nam 976 milljónum króna en í fyrra á þessu sama tímabili var hún 885 milljónir. Eiginfjárhlutfall Nýherja fór á fyrstu þremur mánuðum ársins úr 33,7% í 39,7% á sama tíma og vaxaberandi langtímaskuldir voru greiddar niður um 300 milljónir króna. Á tímabilinu innleystu starfsmenn kauprétti að kaupverði 149 milljónir króna, sem koma til greiðslu í byrjun apríl.

Grynnka verulega á skuldum

Finnur Oddsson forstjóri Nýherja segir rekstur samtæðunnar hafa gengið um margt vel á fjórðungnum og hann sé á áætlun.

„Við erum ánægð með ágæta afkomu og áframhaldandi tekjuaukningu, um 20% á milli ára. Gott gengi að undanförnu hefur gert okkur kleift að grynnka verulega á skuldum og styrkja eiginfjárstöðu, sem hefur sjaldan verið sterkari,“ segir Finnur.

„Sala á tölvum og hljóð- og myndlausnum er sem fyrr stór hluti af okkar starfsemi en tekjur af hýsingar- og rekstrarþjónustu aukast heldur meira, m.a. vegna nýrra verkefna á borð við upplýsingatæknirekstur fyrir Arion banka frá því í byrjun árs.

Vöxtur hugbúnaðartengdrar starfsemi dregur vagninn í tekjuvexti félagsins eins og síðustu fjórðunga og áhersla á vöruþróun og sölu eigin lausna hefur aukist. Til marks um það hafa áskriftartekjur í Kjarna, launa- og mannauðslausn Applicon, nálægt þrefaldast á milli ára og vinna við nýsköpunar- og þróunarverkefni lofar góðu.

Tempo fékk 10 þúsundasta viðskiptavin

Innleiðing á kjarnabankakerfum fyrir SBAB í Svíþjóð fer vel af stað og felur í sér umtalsverða vinnu fyrir sérfræðinga þar og á Íslandi. Tekjuvöxtur er áfram sterkur hjá TM Software, afkoma góð og unnið að spennandi vöruþróunverkefnum. Hjá Tempo gengur áfram vel og tekjur á fjórðungnum námu 4,4 mUSD, sem er 46% aukning.  Viðskiptavinur númer 10.000 slóst í hópinn, sem er stór áfangi og endurspeglar styrk lausna Tempo.

Samstarfs- og söluaðilar Tempo eru nú yfir 100 á heimsvísu, um fimmtungur starfsfólks vinnur nú í Kanada og Bandaríkjunum og stefnt að frekari fjölgun þar. Ágæt eftirspurn er á flestum sviðum samstæðunnar, einkum eftir hýsingar- og rekstrarþjónustu og hugbúnaðarlausnum af ýmsu tagi. Horfur eru því góðar.“