Tekjur WOW air á öðrum ársfjórðungi 2016 námu um 7,7 milljörðum króna sem er 93% aukning miðað við sama tímabil í fyrra. EBITDA fjórðungsins var 1,2 milljarðar króna og jókst rekstrarhagnaðurinn því um 930 milljónir á milli ára. Hagnaður félagsins á öðrum ársfjórðungi var 400 milljónir króna samanborið við 185 milljóna króna tap á öðrum ársfjórðungi árið 2015.

Tekjur WOW air fyrstu sex mánuði ársins námu 11,7 milljörðum króna sem er 107% aukning miðað við sama tímabil árið 2015. Rekstrarhagnaður án afskrifta á fyrstu sex mánuðum ársins var 1,8 milljarðar króna samanborið við 200 milljóna króna rekstrartap árið 2015. Hagnaður félagsins á fyrstu sex mánuðum ársins var 800 milljónir samanborið við 465 milljóna króna tap árið 2015.

Á öðrum ársfjórðungi flugu 354 þúsund farþegar með WOW air sem eru aukning um 106% á milli ára. Sætanýtingin jókst á milli ára og var 86% á öðrum ársfjórðungi 2016 samanborið við 81% á öðrum ársfjórðungi 2015.

Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að félagið hafi ráðið til sín allt að 400 nýja starfsmenn á undanförnu ári, fjárfest í fleiri þotum og hafið flug á nýja áfangastaði.