Skúli Mogensen stofnandi og forstjóri Wow Air segir í Morgunblaðinu í vikunni að velta síðasta árs hjá félaginu hafi verið um 50 milljarðar króna á síðasta ári. Það er töluverð aukning frá síðasta ári sem félagið hefur birt uppgjör, það er 2016 þegar hún var 36,7 milljarðar, eða 36,2%.

En eins og Túristi bendir á þá minnkuðu tekjur á hvern farþega það ár um 4% frá árinu 2015 en þá numu þær rétt um 22 þúsund krónum á hvern þeirra. Nú virðist, miðað við þessar tölur, sem tekjurnar hafi minnkað um allt að fimmtung á hvern farþega milli áranna 2016 og 2017.

Miðast það þá við að á árinu 2017 voru farþegar Wow air 2,8 milljónir sem miðað við 50 milljarða veltu ætti að gefa að tekjur á hvern farþega hafi verið um 17.500 á hvern farþega. Áætlanir Wow gera ráð fyrir 3,7 milljón farþegum í ár, og veltu upp á 70 milljarða, sem ætti að þýða að tekjur á hvern farþega ættu að hækka á ný.

Asíuflug kemur brátt í ljós

Ástæðan er bæði lækkandi meðalfargjöld, en einnig kom til hærri kostnaður vegna hærra olíuverðs, en öfugt við Icelandair, er Wow air ekki varið fyrir verðsveiflum á olíuverði, sem hefur nú hækkað um 40% frá því í fyrra.

Í lok þessa árs mun Wow bæta við sig fjórum breiðþotum, og býst Túristi við því að hann tilkynni um væntanlegt Asíuflug . Samkvæmt frétt Viðskiptablaðsins síðasta sumar hefur Wow air kannað grundvöll fyrir beinu flugi til Indlands. Hefur Skúli verið sagður horfa til Hong Kong, en einnig til Japan og jafnvel Indlands, en þegar flýgur félagið til Tel Aviv í Ísrael.