Ingibjörg Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Skemmtigarðsins, formaður ferðamálasamtaka á höfuðborgarsvæðsins og stjórnarkona í Félagi kvenna í atvinnulífi var í viðtali í Viðskiptablaðinu sem kom út á fimmtudaginn. Eftirfarandi kafli rataði ekki í prentútgáfu blaðsins en er þess í stað birtur hér.

Ingibjörg segir Skemmtigarðana tvo, í Grafarvogi og Smáralind eiga það sameiginlegt að þeir geta tekið á móti erlendum ferðamönnum þrátt fyrir ólíkar áherslur innan garðanna.

Tekur tíma að fá ferðamennina
En hvernig gengur að fá erlenda ferðamenn til að koma til ykkar?
"Það tekur auðvitað tíma eins og allt. Fyrst þurfa Íslendingar að átta sig á þjónustunni til að benda á hana. Ferðasöluaðilar hafa nú áttað sig á hvað við bjóðum upp á og eru byrjaðir að koma með hópa til okkar.  Það er mikið af afþreyingu á höfuðborgarsvæðinu en minna fyrir stóra hópa. Það eru ekki allir sem vilja fara langt út frá höfuðborginni og við getum tekið nokkur hundruð manns í einu í hvataferðir í Grafarvoginum. Ferðamönnum fjölgar ört á ráðstefnur og ferðasöluaðilar vilja bjóða upp á fjölbreytta dagskrá.  Erlendis er mjög algengt að fara með ráðstefnugesti í skemmtigarða þar sem allir geta fundið sér eitthvað við sitt hæfi. Við erum nú að byrja að vinna í að kynna þessar aðferðir fyrir þeim sem skipuleggja ráðstefnur hér á landi.

Hvernig berið þið ykkur að?
Það eru margar leiðir í markaðsetningu erlendis þar sem þú þarft að nálgast marga mismunandi hópa. Hérna á Íslandi er fullt af öflugum fyrirtækjum sem vinna í að fá ráðstefnuhópa og erlenda ferðmenn, bæði einstaklinga og hópa og við höfum ákveðið að láta þá sjá um söluna fyrir okkur og einbeita okkur að því sem við erum best í. Við vinnum svo með þeim að verkefnum og tilboðum en oftast eru viðburðirnir klæðskerasaumaðir að hverjum hóp fyrir sig og  engir tveir hópar eins.


Hefur vantað þessa léttu afþreyingu í bland við menninguna fyrir ferðamennina?
Já, algjörlega. Það sem er að gerast í til dæmis 4-5 daga ferðum er að hópar fara út á land í 1-2 daga en svo er líka þörf að fara styttra frá miðbænum og vera kannski 2-3 tíma í burtu. Það er þjónustan sem við erum að einbeita okkur að.  Við viljum að fólk fari í sleðaferðir, hvalaskoðun, hestaferðir og kynnist náttúru Íslands. En við viljum líka bjóða fólki upp á eitthvað öðruvísi sem getur jafnvel verið í lokin á ferðinni og þjappað hópnum saman áður en farið er aftur heim.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.