Átta smáríki hafa þegar tekið upp evru með aðild að ERM II og sex þeirra gerðu það á 2-3 árum. Þetta segir í skýrslu Alþjóðamálastofnunar um aðildarviðræður Íslands við Evrópusambandð. Þar segir að heldur hafi teygst á reynslutíma tveggja ríkja, Eistlands og Lettlands, þar sem hin alþjóðalega fjármálakreppa hafi tafið fyrir þeim. Af reynslu Íslands af fastgengi á árunum 1989 til 2001 og reynslu annarra ríkja verði ekki önnur ályktun dregin en að Ísland ætti að geta gengið í gegnum ERM II-ferlið til upptöku evru á lágmarkstíma – það er á 2-3 árum.

„Með aðild Íslands að myntbandalagi Evrópu yrði Seðlabanki Íslands eitt af útibúum Evrópska seðlabankans og fengi þar með réttindi til prentunar á evrum. Með því fengi Seðlabankinn tæki til þess að varðveita fjármálastöðugleika og þjóna sem lánveitandi til þrautarvara. Aukinheldur myndi prentvald í evrum bæta efnahagslega stöðu heimila og rekstrarumhverfi atvinnulífs þar sem verðbólga, gengisóstöðugleiki og vaxtasveiflur myndu minnka verulega,“ segir í skýrslunni.

Þá segir að innganga inn á sameiginlegt myntsvæði myndi leiða til aukinnar samkeppni á fjármálamarkaði og lægri vaxta. Núverandi staða sýni að vaxtamunur íslensku bankanna þriggja sé 100-200 punktum hærri en banka á öðrum Norðurlöndum.

„Við inngöngu í Efnahags- og myntbandalag Evrópu myndu íslensk stjórnvöld ekki lengur hafa frelsi til þess að geta sjálf ákveðið eigin peningamálastefnu. Það er fórn að gefa eftir sjálfstæði í peningamálum og einhverju leyti sjálfstæði ríkisfjármála, jafnvel þó íslenskum stjórnvöldum hafi ekki tekist vel upp við beitingu þessara hagstjórnartækja. Líklegt er að í kjölfar aðildar að ESB myndi fylgja meiri breytileiki í atvinnuleysi samfara hagsveiflum þó langtíma atvinnustig ætti ekki að verða fyrir áhrifum,“ segir í skýrslunni.

Þá segir að samhliða upptöku evru yrðu töluverðar stofnanabreytingar að eiga sér stað þar sem hærri nafnlaunahækkanir hérlendis en erlendis myndu draga verulegan dilk á eftir sér í formi verri samkeppnisstöðu og efnahagssamdráttar.