Greiningardeild Arion banka metur það sem svo að vísbendingar séu að verðbólgan muni fara yfir 3% í haust, og það áður en kjaraviðræður fara í gang. Þetta kemur fram í markaðspunktum deildarinnar .

Sérfræðingar greiningardeildarinnar spá 0,1% hækkun vísitölu neysluverðs í júlí en það er hærra en bráðabirgðaspá þeirra fyrir hálfum mánuði gerði ráð fyrir.

Spáin segir að tólf mánaða taktur verðbólgunnar hækki úr 2,6% í 2,7% milli mánaða. Helstu áhrifaliðir á verðbólguna í júlí eru flugfargjöld og húsnæðisverð.

Einnig kemur fram að  ásett verð í fasteignaauglýsingum hefur hækkað nokkurn veginn í takt við vísitölu íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu frá í mars 2014. Á tímabilinu frá mars 2014 til apríl 2018 hefur ásett fermetraverð í fasteignaauglýsingum á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 52%. Á sama tíma hefur vísitala íbúðaverðs hækkað um 52,9%.