Nefnd um endurskoðun á skipulagi bankakerfisins telur ekki heppilegasta kostinn að aðskilja fjárfestingabankastarfsemi frá hefðbundinni viðskiptabankastarfsemi. Heldur leggur nefndin til svokallaða hlutfallsleið sem er öllu tæknilegri og lýsir sér þannig að hámark er sett á hversu mikil fjárfestingabankastarfsemi getur verið.

Nefndinni var falið að meta þrjár mögulegar leiðir við endurskoðun á skipulagi bankakerfisins. Fyrsti möguleikinn var að byggt yrði á umbótum eftir fjármálahrunið þ.e. ekki aðskilnaður. Annar möguleikinn var að aðskilja fjárfestinga- og viðskiptabankastarfsemi. Þriðji möguleikinn, sá sem varð fyrir valinu, var að hlutdeild fjárfestingabankastarfsemi yrðu sett mörk, svokölluð hlutfallsleið.

Þannig leggur nefndin til að „dregin verði varnarlína“ ef fjárfestingabankastarfsemi stærstu bankanna á grunni beinnar eða óbeinnar stöðutöku stærstu bankanna nái 10-15% af eiginfjárgrunni þeirra. Því fylgi að nái fjárfestingabankastarfsemi því hlutfalli verði viðkomandi banka gert að draga úr henni eða setja hana í sérstakt félag sem þó megi vera undir sömu samstæðu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Árið 2017 var fyrrgreint hlutfall um 4,4% hjá stærstu bönkunum þannig að sú leið mun að líkindum ekki hafa nein áhrif samstundis komi hún til framkvæmda.

Til vara leggur nefndin til að löggjafinn veiti Fjármálaeftirlitinu skýra heimild og skyldu til að grípa til aðgerða telji eftirlitið að fjárfestingarbankastarfsemi tiltekins banka sé orðin það viðamikil að hún skapi áhættu fyrir viðskiptabankann. Þá kallar nefndin eftir því að eftirlitsaðilar skilgreini þá kjarnastarfsemi bankanna sem ávallt verður að vera til staðar til að þjóna almenningi og fyrirtækjum landsins.

Þá mælist nefndin til þess að regluverkið skapi eðlilegt svigrúm fyrir nýja aðila á sviði fjártækni, án þess að missa sjónar á fjármálastöðugleikanum. Kallað er eftir reglum til að takmarka áhættu af hátíðniviðskiptum og að sérstaklega verði hugað að samkeppni og samkeppnishæfni við heildarendurskoðun löggjafar um fjármálamarkaðinn.