Aðaleigandi Primera-samstæðunnar, Andri Már Ingólfsson, neitar því að ranglega hafi verið staðið að gerð ársreikninga félaga samstæðunnar. Þeir endurskoðendur sem hafa skoðað ársreikninga félaga samstæðunnar telja mikinn vafa leika á því að ársreikningar félaganna Primera Air ehf. og Primera Travel Group ehf. fyrir síðasta ár séu í samræmi við lög, reglur og góða endurskoðunarvenju. Markaðurinn greinir frá þessu.

Endurskoðendur félaganna hjá Deloitte segja víkjandi lán frá tengdum aðila sem Primera Air var veitt í fyrra upp á 20,9 milljónir evra, sem breytti neikvæðri eiginfjárstöðu félagsins í jákvæða um 4,6 milljónir evra í árslok 2017, flokkist sem eiginfjárgerningur samkvæmt alþjóðlegum reikningsskilastöðlum. Þá feli innleystur hagnaður á árinu 2017 upp á 13,3 milljónir evra vegna sölu á flugvélum, sem ekki var búið að afhenda, í sér breytingu á gangvirðismati þar sem um sé að ræða afleiðusamninga.

Áðurnefndir endurskoðendur, sem ræddu við Markaðinn í trausti nafnleyndar, telja vandséð að áðurnefnt víkjandi lán sem Primera Air var veitt í fyrra geti talist til eigin fjár félagsins en án lánsins hefði eigið fé þess verið neikvætt um 16,3 milljónir evra í lok síðasta árs. Þá segja þeir einnig vafa leika á því hvort félaginu hafi verið heimilt að innleysa á síðasta ári söluhagnað vegna endursölu á Boeing-flugvélum sem eru enn í smíðum og verða afhentar í aprílmánuði árið 2019.

Auk þess er það mat viðmælenda Markaðarins að sterk rök hafi staðið til þess að færa niður, að hluta eða öllu leyti, milljóna evra kröfur Primera Travel Group á hendur systurfélaginu Primera Air og móðurfélagi þess síðarnefnda, PA Holding, í ljósi bágrar fjárhagsstöðu félaganna.