Fasteignasalar segja að þeir finni fyrir hægari hækkun fasteignaverðs undanfarnar vikur að því er kemur fram í grein Fréttablaðsins. Þar er haft eftir Ingibjörgu Þórðardóttur, fasteignasala og fyrrverandi formanni Félags fasteignasala, að það hafi „[..] dregið úr spennunni“ á fasteignamarkaði. Hún segir að aukið jafnvægi sé komið á á milli kaupenda og seljenda.

Í greininni er jafnframt haft eftir Unu Jónsdóttur, hagfræðingi hjá Íbúðalánasjóði, að þau sjái ekkert út frá opinberum veltutölum sem gefi til kynna kólnun á fasteignamarkaði. „En það gæti verið að það eigi eftir að koma fram. Það hafa verið það miklar verðhækkanir að undanförnu að það er eðlilegt að þær haldi ekki áfram á sama hraða,“ segir hún.

Tölur Þjóðskrár Íslands yfir fasteignamarkaðinn á höfuðborgarsvæðinu sýna fram á að velta eykst enn. Fjöldi þinglýstra kaupsamninga um fasteignir við sýslumannsembættin á höfuðborgarsvæðinu í maí var 616 og nam heildarvelta 32,5 milljörðum króna. Þegar mánuðurinn er borinn saman við apríl 2016 fjölgar kaupsamningum um 47,6 prósentustig og eykst veltan um 25 prósentustig. Ef að mánuðurinn er borinn saman við sama mánuð í fyrra fjölgar kaupsamningum lítillega eða um 2,2 prósentustig og velta eykst um 15,5 prósentustig.