Hagfræðideild Landsbankans segir það heilt yfir jákvæð tíðindi fyrir Ísland að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn búist við meiri hagvexti og verðbólgu en áður hafði verið spáð, að minnsta kosti til skamms tíma.

Það sé vegna þess að aukinn hagvöxtur í þeim löndum leiði til aukinnar eftirspurnar eftir útflutningsvörum og þjónustu landsins. Ennfremur aukist líkurnar á að vaxtastig á erlendum mörkuðum þokist upp á við með aukinni verðbólgu og það dragi þar með úr vaxtamun okkar við útlönd að öðru óbreyttu.

Líkt og Viðskiptablaðið hefur greint frá spáir AGS hagvexti á heimsvísu upp á 3,9% næstu tvö árin en slíkur vöxtur hefur ekki sést síðan 2011. Það sem einkum skýrir aukinn vöxt er aukinn hagvöxtur á evrusvæðinu, Japan, Kína og Bandaríkjunum.