Landssamband lífeyrissjóða telur það fráleit krafa Samtaka fjármálafyrirtækja að lífeyrissjóðum verði bannað að lána til fasteignakaupa. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá sambandinu.

Þeir telja það ótvírætt í hag að lífeyrissjóðirnir veiti sjóðfélögum sínum lán til fasteignakaupa, líkt og þeir hafa gert frá því að þeir voru stofnaðir. Því telur Landssambandið það fráleitt að fallast á kröfu Samtaka fjármálafyrirtækja um að Alþingi banni lánastarfsemi lífeyrissjóða. Þetta gengi gegn hagi almennings að mati Landssambandi lífeyrissjóða.

„Fjármálafyrirtækjum gengur aðeins eitt til með þessari kröfu sinni og það er að sitja ein að þessum hluta lánamarkaðarins. Þau vilja að lánveitingar eigi sér stað í gegnum fjárfestingar í fjármálagerningum sem skráðir eru á markaði á borð við sértryggð skuldabréf,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Einnig kemur fram að þau telja líklegt að Samtök fjármálafyrirtækja sjái fyrir sér það fyrirkomulag að lífeyrissjóðir kaupi síðan skuldabréfin og fjármagni þannig fasteignalánin áfram og að það komi nýr milliliður í viðskiptum, sem væru þá fjármálafyrirtækin.

„Slík breyting væri fullkomlega í andstöðu við hagsmuni sjóðfélaga lífeyrissjóða og alls almennings. Að vefja fasteignalánum inn í markaðspappíra er klárlega dýrari og óhagkvæmari kostur en bein lánveiting til sjóðfélaga og hreint ekki til þess fallið að lækka útlánsvexti,“ kemur einnig fram í tilkynningunni.