Ráðgjafafyrirtækið Capacent verðmetur bréf Marel á 458 krónur á hvern hlut. Er það 23,1% hærra verð en sem nam gengi bréfa framleiðslufyrirtækisins við lokun markaða í gær.

Í heild sinni telur Capacent að markaðsvirði Marel sé 318 milljarðar króna. Mismunur verðmatsgengis Capacent og markaðsgengis Marel hefur aldrei verið meiri en nú.

Marel framleiðir vél- og hugbúnað til fullvinnslu á alifuglum, kjöti og fiski. Markmið fyrirtækisins er að gera matvælaframleiðendum kleift að hámarka nýtingu, gæði og afköst samhliða því að draga úr vinnslutíma.

Metár að baki

Í verðmati Capacent, sem dagsett er 14. febrúar, segir að uppgjör Marel fyrir árið 2017 hafi verið vel yfir væntingum og að félagið sé á fljúgandi siglingu.

Tekjur félagsins námu yfir milljarði evra, eða um 125 milljörðum króna, og jukust um 7,1% milli ára. Þá var EBITDA-hlutfall 18,5%. Ábatinn af kaupum Marel á hollenska fyrirtækinu MPS árið 2016 kom í ljós á fyrri hluta síðasta árs, þó að samlegðaráhrifin séu ekki komin fram að fullu. Þá styrkti félagið reksturinn á síðari hluta ársins og bætti sjóðsstöðu sína. Leiðir þetta meðal annars til þess að verðmatsgengi Marel hækkar um 11% frá verðmati Capacent í desember síðastliðnum.

Byssurnar hlaðnar

Stjórnendur Marel stefna að því að velta félagsins vaxi um 12% á hverju ári að meðaltali næstu tíu árin. Capacent spáir því hins vegar að vöxtur félagsins verði langt undir þessu markmiði og veltir fyrir sér hvort vaxtarforsendur félagsins séu yfirhöfuð skynsamlegar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .