Íbúðalánasjóður samþykkti á dögunum kauptilboð Almenna leigufélagsins í Leigufélagið Klett ehf., en kaupverðið nemur rúmum 10 milljörðum króna. Almenna leigufélagið mun með kaupunum eignast 450 íbúðir Kletts og verða íbúðir í eigu félagsins alls um 1.000 að kaupum loknum.

Almenna leigufélagið er í eigu þriggja fagfjárfestasjóða sem reknir eru af sjóðstýringarfélaginu GAMMA, en félagið hefur undanfarin ár haslað sér völl á íslenskum leigumarkaði. María Björk Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Almenna leigufélagsins, er ánægð með við­ bótina við eignasafnið.

Töldu eignirnar of lágt metnar

„Að okkar mati voru þessar eignir of lágt metnar og við sáum að hægt væri að gera góð kaup í þessu safni. Þessar íbúðir voru handvaldar frá Íbúðalánasjóði yfir í Klett sem íbúðir sem hentuðu vel í útleigu og það fyrsta sem þeir gerðu var að ráðast í miklar endurbætur. Eignasafnið er því í mjög góðu ásigkomulagi og allt saman í útleigu, auk þess sem við sáum vissulega mikla stærðarhagkvæmnismöguleika þar sem við erum nú þegar með rúmlega 500 eignir í rekstri,“ segir María Björk í samtali við Viðskiptablaðið.

Kaupverðið á Kletti var 1,5 milljörðum króna hærra en bókfært virði félagsins en María er fullviss um að gerð hafi verið góð kaup. „Eignirnar voru bókfærðar á fasteignamati og að okkar mati var eignasafnið mun meira virði. Eignirnar eru í sterkum bæjarfélögum, þriðjungur er á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðareignirnar eru í stöndugum bæjarfélögum með virkan fasteignamarkað.“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .