Matsfyrirtækið Moody’s telur að sala Íbúðalánasjóðs á Kletti, leigufélaginu sem er dótturfélag sjóðsins, muni hafa jákvæð og styrkjandi áhrif á afkomu og stöðu sjóðsins á næstu árum. Frá þessu segir í nýútgefnu fréttabréfi sem matsfyrirtækið sendi frá sér.

Eignir Kletts eru rétt rúmlega eitt prósent allra eigna Íbúðarlánasjóðs en þrátt fyrir hve lítil hlutdeild Klettur er af heildareignum fyrirtækisins telja Moody’s að salan muni hafa markanleg áhrif á afkomu sjóðsins.

Félagið Klettur var auglýst til sölu í lok febrúarmánaðar þessa árs en Almenna leigufélagið gerði svo kauptilboð í Klett fyrir skömmu síðan upp á 10,1 milljarð króna og var tilboðinu tekið. Moody’s segir að söluverðið sé 1,5 milljarði yfir bókfærðu virði félagsins.