Fulltrúar margra af stærstu hluthöfum Icelandair Group sem Viðskiptablaðið hefur rætt við telja sig ekki geta tekið afstöðu til kaupa félagsins á Wow air fyrr en frekari upplýsingar fást um fjárhagsstöðu Wow air, endanlegt kaupverð og ætluð samlegðaráhrif af kaupunum. Beðið er niðurstöðu áreiðanleikakönnunar sem liggja á fyrir áður en kaupin verða borin fyrir hluthafa á hluthafafundi 30. nóvember. Fyrir hluthafafundinum liggur einnig tillaga um hlutafjáraukningu hjá Icelandair en ekki hefur verið gefið út við hvaða gengi hlutafjáraukningin mun miðast.

Fundinum frestað?

Raddir í hluthafahópnum kalla einnig eftir því að afstaða þeirra sem keyptu skuldabréf af Wow air í skuldabréfaútboði í september liggi fyrir sem hugsanlega verður ekki fyrr en 6. desember, viku eftir boðaðan hluthafafund hjá Icelandair.Því hafa hlutahafar velt því upp hvort hluthafafundinum verði frestað ef svör við spurningum sem nú eru uppi verði ekki svarað fyrir 30. nóvember.

Úlfar Steindórsson, stjórnarformaður Icelandair Group, segir að verið sé að vinna hörðum höndum að fá niðurstöðu í öll mál tengd kaupunum fyrir boðaðan hluthafafund. Að svo stöddu sé lítið hægt að gefa upp um hvenær nánari upplýsingar liggi fyrir um kaupin, en það verði að líkindum ekki fyrr en í næstu viku. „Þetta er rosalega yfirgripsmikið mál og það þarf að komast til botns í þeim öllum, og þá er í raun og veru hægt að segja til um hvernig hlutirnir verða,“ segir Úlfar.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .