Teikn eru á lofti um það að velta hafi verið meiri í Costco en velta Bónuss fyrstu daga eftir opnun verslunarinnar í Kauptúni, Garðabæ, samkvæmt tölum Meniga. Þetta kemur fram í umfjöllun Fréttablaðsins . Blaðið hefur þær upplýsingar að veltan í Costco var 32 prósent af heildarveltunni á dagvörumarkaði á fyrstu dögum eftir opnun en Bónuss 28 prósent.

Fram kemur í fréttinni að Meniga hefur enn ekki viljað gera tölurnar opinberar þar sem að þeir vinni enn við að fullvinna upplýsingarnar - en ef hægt er að taka mið af þessum tölum sé þetta talsvert meiri markaðshlutdeild en keppinautar Bónuss og Krónunnar hafa haft á dagsölumarkaði hingað til. Tölurnar eru einnig áhugaverðar í því ljósi að Bónus rekur alls 32 verslanir um land allt og þar af 20 á höfuðborgarsvæðinu, en Costco rekur einungis eina verslun í Garðabæ. Þó ber að halda því til haga að Costco selji meira en dagvöru.