Björgólfur Jóhannsson, fráfarandi formaður Samtaka atvinnulífsins, sagði í ræðu sinni á Ársfundi atvinnulífsins 2017 að Samtök atvinnulífsins telji aðild sína að stjórnum lífeyrissjóða hafa verið til góðs og skipt sköpum við uppbyggingu sjóðanna. Hægt er að fylgjast með fundinum hér.

Í frumvörpum sem lög hafa verið fyrir Alþingi hefur verið kallað eftir breytingu á skipan stjórna lífeyrissjóða og í stað fulltrúa stéttarfélaga og atvinnurekenda verði stjórnarmenn kosnir í beinni kosningu sjóðfélaga. Einnig eru uppi tillögur um að sjóðfélagar geti valið sér lífeyrissjóð í stað núgildandi skylduaðildar.

Björgólfur segir að verði umræddar tillögur samþykktar muni leiða til ófarnaðar og með því ljúki hlutverki aðila vinnumarkaðarins í rekstri og uppbyggingu lífeyrissjóðanna. „Framlög í lífeyrissjóði muni smám saman fá einkenni skatts og ábyrgð á þróun og rekstri allra lífeyrissjóða færast til ríkisins. Þá er gott að hafa í huga að ríkið hefur ekki sýnt ábyrgð við uppbyggingu lífeyriskerfis starfsmanna sinna þar sem skuldbindingum er velt á framtíðina. Því verður ekki trúað að Alþingi vilji ráðast gegn rótum íslenska lífeyriskerfisins sem um hefur ríkt góð sátt og víða verið horft til sem fyrirmyndar,“ segir Björgólfur enn fremur.