Kaupmáttur landsmanna í mat og drykk er í sögulegu hámarki. Hefur hann aukist um tæplega 8% frá áramótum samkvæmt útreikningum Jóns Bjarka Bentssonar, aðalhagfræðings Íslandsbanka, en fjallað er um málið í Morgunblaðinu . Þar segir Jón Bjarki að aukin samkeppni eigi þátt í því að kaupmáttur í mat og drykk hafi aldrei verið meiri.

Jón Bjarki bendir á að kaupmáttur á þennan mælikvarða hafi aldrei verið meiri og að það sé í raun og veru talsvert frá því að hann fór yfir þann topp sem að hann náði fyrir efnahagshrunið 2008.

Hann gerir ráð fyrir því að vegna aukinnar samkeppni í verslun muni veiking krónu frá júníbyrjun leiða til minni verðhækkana í haust en ella og að þessi auknu áhrif samkeppni séu meiri en Íslandbanki hafi búist við. Þá nefnir hann sérstaklega að innkoma Costco og síðar H&M á markaðinn. Einnig nefnir hann áhrif netverslunar sem auki enn á samkeppni í verslun.

Slær á verðhækkanir

Aðalhagfræðingur Íslandsbanka segir að verð á innfluttum matvælum hefur oft hækkað nokkuð fljótt eftir veikingu krónunnar, en það hafi ekki verið raunin enn sem komið er. „Ég held að ástæðan sé aukin samkeppni,“ segir Jón Bjarki.

Hann segir að án húsnæðis hafi verið ríflega 3% verðhjöðnun undanfarna 12 mánuði og að innfluttar vörur hafi lækkað um 7% í verði. Svo mikil verðhjöðnun á innfluttum vörum hefur ekki mælst áður, að minnsta kosti ekki á síðustu tveimur áratugum. Eins og Viðskiptablaðið fjallaði um fyrr í dag mældist verðbólga 1,7% í ágúst og 3% verðhjöðnun án húsnæðis.