Sigurður Ingi Jóhannsson, fyrrverandi forsætisráðherra, og formaður Framsóknarflokksins, telur að háir vextir hérlendis séu undirliggjandi vandi hagkerfisins. Hann skrifar í pistli sem birtist í Viðskiptablaðinu að nauðsynlegt sé að lækka stýrivexti til að laga það ástand.

„Háir vextir ýta undir ójöfnuð hér á landi. Heimilin borga stærri hlut ráðstöfunartekna sinna til fjármálageirans í formi vaxta. Þeir sem fjármagnið eiga hagnast sem aldrei fyrr – og bilið breikkar milli þeirra sem eiga og hinna sem greiða. Þá verða fjárfestingar mun dýrari fyrir fyrirtækin og atvinnulífið minna samkeppnishæft við erlend fyrirtæki og þar með innflutning,“ skrifar Sigurður Ingi meðal annars.

Hann bætir við að háir vextir sem leiða til vaxtamunaviðskipta eru í eðli sínu óstöðug atvinnugrein innan hagkerfisins og valda óþarfa þrýstingi á krónuna. „Ekki er eftirsóknarvert að bjóða erlendum fjárfestum upp á hærri vexti ef tilgangur þeirra er aðeins skammtímagróði. Viðvarandi gjaldeyrisinnstreymi vegna ferðamanna er eitt, en skammtíma innflæði vegna vaxtamunar er allt annað og mun verra ef stýringin er ekki rétt. Ástæðan er sú að allt í einu geta fjárfestar tekið ákvörð­un um að hæstu hæðum krónunnar sé náð, farið út með sitt fé, allir í einu og afleiðingin er gamalkunn; gengið fellur og verðbólgudraugurinn rankar við sér,“ bætir forsætisráðherrann fyrrverandi við.