Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og 1. varaforseti ASÍ. segir að senn skýrist hvort niðurstaða náist í kjaraviðræður Eflingar, VR og Verkalýðsfélaga Akraness og Grindavíkur við Samtök atvinnulífsins. Á næsta samningafundi sé komið að því að ræða launalið kjarasamninganna. „Það skiptir miklu máli að fara að fá að sjá hvað er í kortunum,“ segir Vilhjálmur.

„Það er alveg ljóst að hlutirnir munu skýrast á næstu dögum. Um miðbik þessa mánaðar ætti að liggja ljóst fyrir hvort nái saman um kjarasamninga.“ Vilhjálmur bendir á að það verði í höndum almennra félagsmanna að taka ákvörðun um hvaða leið verði farin ef ekki nást samningar.„En það er alveg ljóst ef að það næst ekki viðunandi niðurstaða með þeim hætti að menn geti haldið mannlegri reisn er allt eins líklegt að það muni bresta á verkfall í byrjun marsmánaðar,“ segir hann.

„Markmið okkar í þessum samningum er að lágtekjufólk geti framfleytt sér frá mánuði til mánaðar. Slíku er ekki til að dreifa í dag,“ segir hann.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .