Mikið offramboð á hráolíu hefur þrýst verðinu niður fyrir 50 dali á tunnu. Verð á hráolíu hefur því fallið um allt að 70% frá árinu 2014.

Þessar miklu og snöru lækkanir hafa gert olíufélögunum erfitt fyrir, en hagnaður þeirra hefur dregist verulega saman í kjölfarið. Wim Thomas, helsti orkuráðgjafi Shell, segir að ástandið muni líklegast vara til seinni hluta ársins 2017.

Samkvæmt Reuters fréttaveitunni, segir hann erfitt að áætla hvað muni þrýsta verðinu aftur upp. Eftirspurn frá Kína og Indlandi gæti til dæmis þrýst verðum aftur upp á næstu árum, enda eru löndin í mikilli sókn.

Markaðsaðilar fylgjast almennt grannt með OPEC þjóðunum, og vona ýmsir framleiðendur að samtökin ákveði að draga úr framleiðslu.

Fulltrúar OPEC munu funda á hliðarlínunni á IEF ráðstefnunni sem fer fram í lok september.