Rúnar Vilhjálmsson, prófessor í félagsfræði við hjúkrunarfræðideild HÍ, telur rétt að skoða alvarlega hvort heimildir heilbrigðisráðherra séu of rúmar og hvort Alþingi ætti að hafa meiri aðkomu að stefnubreytingum í heilbrigðisþjónustunni. Þetta kom fram á málþingi um einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu sem BSRB og ASÍ stóðu fyrir í gær.

Ræða Rúnars kom til vegna áforma heilbrigðisráðherra um bjóða út rekstur þriggja nýrra heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu, og með því auka enn á einkarekstur í heilbrigðiskerfinu. Málið hefur ekki verið rætt á Alþingi og ekki kallað eftir umsögnum hagsmunaaðila eða almennings vegna þessarar umdeildu ákvörðunar.

Í erindi sínu segir Rúnar jafnframt að óvíst sé hvort einkavæðingin fjölgi heimilislæknum og bendir á að þegar hafi verið umtalsverð einkavæðing í heilsugæslunni á undanförnum árum. Þrátt fyrir það hafi heilsugæslulæknum ekki fjölgað.