Katrín Ólafsdóttir, lektor við viðskiptafræðideild Háskólans í Reykjavík, segir að það sé engu hagkerfi hollt að einn einstaklingur hafi þau völd sem Skúli Mogensen hafði hjá Wow air. Katrín var viðmælandi Morgunvaktarinnar á Rás 1 í morgun, en þar ræddi hún um gjaldþrot WOW air og hvaða afleiðingar það hefði í för með sér.

Katrín á jafnframt sæti í peningastefnunefnd Seðlabankans og er hún einnig á meðal umsækjenda um stöðu seðlabankastjóra.

Katrín segir gjaldþrotið geta haft töluvert mikil áhrif og ekki verði komist hjá því að við það missi væntanlega mörg þúsund manns vinnuna.

„Það verður að segjast eins og er að það að missa vinnuna er eitt stærsta sálfræðilega áfall sem við verðum fyrir. Fólk upplifir þetta sem gríðarlega höfnun þannig að andlega getur þetta orðið mörgum mjög erfitt,“ sagði hún.

„Mjög nauðsynlegt að menn setjist niður núna og spyrji sig hvað gerðist og hvað við hefðum getað gert öðruvísi.“

Katrín var svo spurð af þáttarstjórnendum um „hvernig það megi vera að eitt fyrirtæki fái nánast leyfi til þess að vera rekið í rassvasanum á stjórnandanum, fyrirtæki sem hafi áhrif á húsnæðislán fólks út um allt land í hverju einasta bæjarfélagi.“

„Mér finnst þetta mjög góð spurning, kannski ekki varðandi húsnæðislánin heldur að einn maður sé með svona marga í vinnu og að margir treysti á þessa vinnu. Ekki bara hjá flugfélaginu sjálfu, heldur líka öll þessi afleiddu störf sem hafa orðið til.

Þetta er eitthvað sem ég hef verið að velta fyrir mér. Við verðum að horfa á einkaframtakið, að það sé mikilvægt, en svo má horfa til þess að fyrirtækið skilaði ekki ársreikningum og þá fer maður að hugsa að það sé eitthvað skrítið í gangi, og spurning hvort það þurfi ekki að stíga inn og skoða það mál betur. Ég veit ekki hvað það ætti helst að vera.

Og varðandi skuldina við Isavia, þar hafði ríkið í rauninni möguleika á að grípa inn í með því að taka þar til. En ég held að það sé mjög nauðsynlegt að menn setjist niður núna og spyrji sig hvað gerðist og hvað við hefðum getað gert öðruvísi. Auðvitað viljum við ekki stoppa einkaframtakið, það er engu hagkerfi hollt, en við verðum einhvers staðar að setja mörkin, að einn einstaklingur fái ekki þessi völd. Auðvitað er stjórn þarna að baki en við vitum að Skúli hefur verið mjög ráðandi í þessu fyrirtæki. Þannig að ég held að í framhaldinu sé þetta eitthvað sem við verðum að leggja niður fyrir okkur af því að þótt þetta sé ekki stórt fyrirtæki á alheimsvísu er þetta gríðarlega stórt fyrirtæki á Íslandsvísu,“ sagði Katrín.

Katrín benti einnig á að þjóðarbúið hafi sjaldan verið eins vel í stakk búið til þess að takast á við áfallið sem gjaldþrot Wow air hefur í för með sér. Það sé búið að taka mikið til í efnahagskerfinu síðustu tíu árin. Þannig að mörgu leyti séu Íslendingar betur búin núna en þeir hefðu verið fyrir kannski fimm árum síðan, eða tíu árum. Því sé þessi tímasetning betri heldur en margar.