Tempo, sem er dótturfyrirtæki Nýherja, hefur endurskipulagt starfsemi sína hér á landi í kjölfar opnunar nýrrar starfsstöðvar fyrirtækisins í Montréal í Kanada, að því er kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Átta störf verða lögð niður hér á landi við breytingarnar, meðal annars vegna flutnings verkefna héðan og til Montréal.

Þá hefur fyrirtækið einnig opnað skrifstofu í San Francisco sem mun sinna innleiðingarverkefnum í samvinnu við viðskiptavini Tempo á Bandaríkjamarkaði. Gert er ráð fyrir að starfsmönnum Tempo í Norður-Ameríku muni fjölga enn frekar á næstu misserum. Tilgangur breytinganna er að laga starfsemi fyrirtækisins betur að þörfum viðskiptavina sem margir hverjir eru vestanhafs en einnig felst í þeim breyting á innra skipulagi Tempo hér landi. Rekstur Tempo í ár er í takti við áætlanir og gert er ráð fyrir áframhaldandi söluaukningu á vörum fyrirtækisins.

Starfsmenn fyrirtækisins voru níu talsins árið 2012 en eru í dag í kringum níutíu í þremur löndum. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Borgartúni 37 í Reykjavík.

Ágúst Einarsson, forstjóri Tempo, segir í tilkynningunni að það hafi verið spennandi og krefjandi verkefni að opna skrifstofur í Bandaríkjunum og Kanada. Í kjölfarið var skoðað hvernig ætti að forgangsraða starfseminni og hvernig ætti að skipta verkefnum á milli höfuðstöðvanna og þróunarskrifstofunnar í Kanada. Niðurstaðan hafi verið sú að leggja niður nokkur störf á Íslandi fjölga í staðinn þeim sem starfi vestanhafs.