Gullkálfur Nýherja, dótturfélagið Tempo, hefur fengið á sig gagnrýni notenda í kjölfar uppfærslu á skýjalausn félagsins. Stjórnendur fyrirtækisins segja að verið sé að leysa vandann og að breytingin feli í sér enn frekari vaxtatækifæri.

Gengi hlutabréfa Nýherja hefur meira en tvöfaldast á síðastliðnu ári. Nam hækkunin um 108%, frá því að það var lægst á síðustu 12 mánuðum, þann 28. júlí 2016 þegar það nam 16,5 krónum á hlut, þangað til það náði hápunkti 21. júní síðastliðinn, þegar það var í 34,3 krónum.

Síðan þá hefur gengið eilítið gefið eftir og var lokagengi bréfanna í gær 32,45 krónur, en eins og Viðskiptablaðið fjallaði um í lok júlí er Nýherji með hæsta V/H hlutfallið í íslensku kauphöllinni, eða 37,7 á þeim tíma.

Er hækkun verðmætis Nýherja að stærstum hluta rakin til dótturfélagsins Tempo, en tekjur þess á síðasta ári námu 13 milljónum Bandaríkjadala, sem er aukning um 40% á milli ára. Starfa nú 95 manns hjá fyrirtækinu, en þar af eru 20 þeirra staðsettir í Montréal og San Fransisco.

Tempo býður upp á viðbótarlausn ofan á Jiro verkefnastjórnunarkerfið frá fyrirtækinu Atlassian, sem verið hefur vinsælt hjá mörgum fyrirtækjum sem starfa í tölvugeiranum. En nú hefur brugðið svo við að nýjasta uppfærsla Tempo hefur ekki gengið hnökralaust fyrir sig, og hefur töluverð óánægja heyrst frá notendum kerfisins.

Forritið frá Tempo er notað til að mæla þann tíma sem fer í hvert forritunarverkefni, flokka þau eftir því hvernig rukkað er fyrir þau og síðan eru gögnin send í bókhalds- og rukkunarkerfi fyrirtækjanna. Þegar ummæli notenda sem hafa skrifað gagnrýni á kerfið eru skoðuð sést að gegnumgangandi þema er hve ánægðir þeir voru með kerfið þangað til nýjasta uppfærslan var gerð en óánægðir með að nú hafi ýmsir möguleikar dottið út.

Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, segir kvartanirnar tengjast yfirfærslu þess hluta viðskiptavina Tempo sem hafa áskrift í gegnum ský úr einum skýjagrunni yfir í annan. Þeir séu um þriðjungur áskrifandanna, en meirihlutinn hafi kerfið á eigin gagnagrunnum og breytingin hafi engin áhrif á þá.

„Frá upphafi hefur skýjalausnin verið keyrð á vefþjóni á vegum Atlassian, sem rekur Jira-kerfið. Fyrir tveimur árum síðan ákváðu þeir að færa sig yfir á skýjaþjónustu Amazon og urðum við því að fylgja með,“ segir Finnur sem segir breytinguna hafa verið lengi í undirbúningi.

„Þetta er öruggara og betra kerfi og verður það mun hraðara, en við nýttum tækifærið því að sú vinna sem fer í að skrifa vöruna fyrir skýjalausn Amazon er einnig hægt að nýta svo við getum boðið okkar lausnir til annarra en viðskiptavina Atlassian.“

Finnur segir að þó að Jira kerfi Atlassian hafi vaxið hratt á undanförnum árum þá sé það umhverfi lítið í hinu stóra samhengi og með þessu verði hægt að bjóða hana sem viðbót við fleiri verkefnastjórnunarkerfi. „Í þessu felast gríðarleg vaxtatækifæri.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .