Hlutabréf í tæknirisanum Tencent Holdings féllu um 6,7% í dag eftir að fjórðungsuppgjör félagsins, sem birt var í gær, sýndi að hagnaður dróst saman frá sama ársfjórðungi árið áður. Það hefur ekki gerst hjá félaginu síðan árið 2005.

Félagið hefur átt erfitt á hlutabréfamörkuðum allt árið, en félagið hefur lækkað um fjórðung frá áramótum, og þriðjung frá hápunkti ársins í lok janúar, sem jafngildir yfir 175 milljarða dollara, um 19 þúsund milljarða króna, lækkun markaðsvirðis.

Afkomusamdrátturinn kom greiningaraðilum í opna skjöldu, sem flestir mæla með kaupum á bréfum félagsins. „Þessar tölur komu okkur fullkomlega að óvörum, og við biðjumst afsökunar á því,“, sagði greiningaraðili í tilkynningu, eftir að í ljós kom að hagnaðurinn var mun minni en hann hafði spáð.

Félagið, sem er meðal annars stærsta fjárfestingafélag heims, og stærsta og verðmætasta leikja- og samfélagsmiðlafyrirtæki heims, á meðal annars kínverska samfélagsmiðilinn WeChat, sem hefur yfir milljarð notendur.