Síðastliðið sumar voru þriðjungi fleiri brottfarir flugfélaga frá Keflavíkurflugvelli en frá öllum borgum Skandinavíu samanlagt. Isavia segir þriðjung farþega fara beint í tengiflug en vegna legu og tengimöguleika geti verið fljótlegra að fljúga í gegnum Keflavík heldur en New York.

Samtals voru 216 ferðir á viku frá Keflavíkurflugvelli einum saman í sumar en á sama tíma samtals 162 frá öllum borgum Skandinavíu að því er Morgunblaðið greinir frá.

Frá árinu 2015 hefur fjölgun brottfara frá Keflavík fjölgað um rúmlega 80%. Icelandair er með stærsta hlutfallið af fluginu til Norður Ameríku með 134 kbrottfarir á viku en Wow Air er næst atkvæðamest með 59 ferðir. Samtals eru áfangastaðirnir 21 talsins.
Á hinum Norðurlöndunum er SAS með flestar brottfarir á viku, en næst þar á eftir kemur lággjaldaflugfélagið Norwegian.

Oft fljótlegasta leiðin milli borga

Guðni Sigurðsson upplýsingafulltrúi Isavia segir að um þriðjungur farþega sem fari um Keflavíkurflugvöll komi aldrei inn í landið, heldur séu einungis í tengiflugi milli Evrópu og Norður Ameríku.

„Mjög oft er þetta líka fljótlegasta leiðin milli borga þar sem bandarískir flugvellir eru kannski ekki með mikið flug til Evrópu,“ segir Guðni sem segir legu Íslands heppilega fyrir tengiflug milli heimsálfanna.

„Með Íslandstengingunni komast þeir inn á svo marga áfangastaði í Evrópu. Það getur oft verið miklu auðveldara og fljótlegra að fara um Keflavík til Evrópu frá bandarískri borg en til dæmis um JFK í New York.“