Náms- og starfsráðgjöf Háskóla Íslands (NSHÍ) og Stúdentaráð Háskóla Íslands (SHÍ) hafa opnað nýjan vef, tengslatorg.hi.is, sem helgaður er atvinnumálum stúdenta við skólann. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu.

Nú þegar hefur fjöldi fyrirtækja ákveðið að taka þátt í verkefninu en yfir 500 stöðugildi bjóðast nemendum n.k. sumar að því er tilkynningin greinir frá. Vefnum er ætlað að leiða saman stúdenta og eftirspurn fyrirtækja og stofnana eftir starfskröftum með sérfræðiþekkingu. Þannig er markmið vefjarins að auðvelda nemendum skólans að finna starf við hæfi annars vegar og fyrirtækjum og stofnunum að ná til nemenda hins vegar.

Gert er ráð fyrir því að vefurinn muni stækka og eflast eftir því sem fram líður en fleiri sumarstörf munu bjóðast nemendum strax í upphafi marsmánaðar, m.a. hjá Reykjavíkurborg. Vefurinn er opinn og fyrirtækjum og stofnunum mun áfram bjóðast að sækjast eftir starfskröftum næsta sumar endurgjaldslaust. Fjölbreytt flóra fyrirtækja sækist nú eftir háskólanemum allt frá fjármálafyrirtækjum á borð við Íslandsbanka til stærstu heilbrigðisstofnunar landsins, Landspítalans.

„Í upphafi er einkum horft til sumarstarfa en vefurinn er annars hugsaður sem alhliða atvinnumiðlun fyrir nemendur Háskóla Íslands. Ávinningur fyrirtækja og stofnana af því að auglýsa laus störf á Tengslatorgi Háskóla Íslands felst fyrst og fremst í þeim mikla mannauði sem skólinn býr yfir. Vefsvæðið nær til allt að 13.000 nemenda í 132 námsgreinum,“ segir í tilkynningunni.