Bandaríski bílaframleiðandinn Tesla hefur afhent fyrstu 30 bílanna af nýjustu tegund fyrirtækisins, Model 3. Bíllinn er töluvert ódýrari en fyrri bílar frá Tesla og kostar um 35.000 Bandaríkjadollara, sem er mun lægra verð en Tesla hefur boðið upp á hingað til.

Samkvæmt frétt BBC gerir fyrirtækið ráð fyrir því að geta framleitt 5.000 bíla á viku á þessu ári og að framleiðslugetan verði komin upp í 10.000 bíla á viku árið 2018.

Rúmlega hálf milljón viðskiptavina hefur þegar pantað bílinn. Ef lögð er inn pöntun í dag má búast við því að fá bílinn afhentan seint á næsta ári.

Elon Musk, stofnandi og forstjóri Tesla sagði við tilefnið að framtíðin væri núna og bætti því við að allir Model 3 bílarnir innihéldu vélbúnað svo hægt væri að gera bílinn sjálfkeyrandi. „Þú munt geta horft á kvikmynd, talað við vini þína eða jafnvel lagt þig á meðan bíllinn keyrir sig sjálfur.“