Elon Musk, stofnandi Tesla Motors, tjáði alheiminum það að fyrirtækið myndi kynna nýja vöru eftir hádegi í Kaliforníu. Frumkvöðullinn nýtti sér samfélagsmiðilinn Twitter til þess að koma skilaboðunum áleiðis.

Hlutabréfin í Tesla hækkuðu um 2% í kjölfar tístsins og fæst hver hlutur nú á rúmlega 227 dali. Mikil spenna er fyrir vörunni og hafa fjölmiðlar nú þegar byrjað að spá í spilin.

Elon Musk er stórhuga og hefur margoft lýst stefnu sinni um hvernig hann hyggst breyta heiminum með sólarorku, rafbílum og geimskutlum. Fyrirtækið hefur þó þurft að ganga í gegnum ýmislegt undanfarna misseri.

Sjálfstýringarbúnaður félagsins er talinn hafa valdið nokkrum slysum og hefur fyrirtækinu ekki tekist að framfylgja framleiðsluáætlunum sínum. Viðskiptavinum til lítillar ánægju.

Aðilar á markaði hafa einnig orðið svartsýnni á fyrirætlanir félagsins og hefur skortstöðum því fjölgað til muna.

Fyrr í mánuðinum samþykkti SolarCity 2,6 milljarða dala yfirtökutilboð Tesla Motors. Gengi SolarCity hækkaði einnig í dag og það um 1,5%. Gera má ráð fyrir því nýja varan hafi eitthvað með samrunann að gera.