Í viðskiptum morgunsins hafði hlutabréfaverð Tesla Motors hækkað á tímabili um 3,7%, og þar af hækkað heildarvirði bréfa fyrirtækisins upp í 51 milljarð Bandaríkjadala.

Það þýðir að heildarvirði bréfa fyrirtækisins var komið 1,7 milljarð dala fram yfir heildarvirði bréfa General Motors, sem löngum hefur verið einn aðalbílaframleiðanda landsins.

Sýnir trú fjárfesta á Musk

Í frétt Bloomberg um málið segir að þetta sýni trú fjárfesta á sýn eiganda Tesla Motors, Elon Musk, að rafbílar muni á endanum taka yfir markaðinn.

Þrátt fyrir að GM hafi verið á undan Tesla á markað með tengibílinn Chevrolet Bolt sem verði með svipað virði og drægni og Model 3 bíllinn sem Tesla hefur lofað, virðist áhuginn á bréfum hins meira en aldagamla fyrirtækis ekki ná þeim hæðum sem hið unga fyrirtæki Musk virðist vera að ná.

Model 3 fólksbíllinn frá Tesla mun væntanlega kosta um 35 þúsund dali og hafa um 350 kílómetra drægni á hverri hleðslu.

Fór upp fyrir Ford fyrir viku

Einungis er vika síðan hlutabréfaverð Tesla fór upp fyrir heildarverð hlutabréfa bílaframleiðandans Ford.

Er þetta að gerast þrátt fyrir það að búist er við að Tesla tapi um 950 milljón dölum á árinu meðan GM væntir þess að hagnast um 9 milljarða og Ford um 6,3 milljarða. Tesla framleiddi einungis 80 þúsund bíla á síðasta ári meðan GM framleiddi meira en 10 milljón bíla.

Komið í sjötta sæti bílaframleiðenda

Þegar þetta er skrifað hefur aðeins dregið úr hækkun á gengi bréfa Tesla í dag, sem nemur nú 3,09%, en ef viðskiptum dagsins lýkur þannig að félagið sé yfir heildarverði GM er Tesla komið í sjötta sætið yfir bílaframleiðendur í heildarvirði.

Það væri þá á eftir Toyota Motor corp, Daimler AG, Volkswagen AG, BMW AG og Honda Motor Co., en það síðastnefnda er ekki langt frá með heildarvirði upp á 52 milljarð dala. Enn er langt í að félagið nái Toyota en heildarvirði þess er um 172 milljarðar dala.