Líf Magneudóttir, oddviti Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs (VG) í borgarstjórn Reykjavíkur og forseti borgarstjórnar, segist mjög ánægð með niðurstöður nýrrar könnunar, sem Gallup gerði fyrir Viðskiptablaðið . Samkvæmt könnuninni mælist VG nú með 20,8% fylgi, sem er ríflega tvöfalt meira en flokkurinn fékk í kosningunum 2014.

„Þetta er náttúrulega frábært. Við erum að tvöfalda fylgið okkar frá seinustu könnun. Við vorum með 8% í síðustu kosningum. Það voru ekki mistök að mynda þennan meirihluta eins og verður oft með minni flokka sem fara inn í meirihluta. Ég held að það tengist því að borgarbúar kunna að meta okkar áherslur, Vinstri grænna, sem eru félagslegar, grænar, og feminískar og þær áherslur sem við höfum haft í menntamálum sérstaklega. Ég held að fólk í borginni sé þannig þenkjandi að það vilji meiri áherslu á jöfnuð, það er einmitt það sem við stöndum fyrir og höfum alltaf gert,“ segir Líf í samtali við Viðskiptablaðið.

Hluti af stærra samhengi

Líf tekur jafnframt fram að hún telji niðurstöðurnar hluti af stærra samhengi. „Við erum alltaf samkvæm sjálfum okkur og við erum alltaf með mjög skýra stefnu. Bæði í borginni og á landsvísu höfum við tekið upp mál sem eru í fyrstu óvinsæl og umdeild, fólki finnst við vera einhverjir vitleysingar, en svo hefur það alltaf sýnt sig að þau mál eru komin til að vera. Því fólk gerir sér grein fyrir að það sé framtíðin, það þarf að hugsa lengur en bara í einhverju kjörtímabili. Við getum nefnt mjög mál, eins og að vera með femínska stefnu eða umhverfisvernd. Hérna í borginni er hægt að nefna það að leggja hjólastíga. Þá sagði fólk að það hjólaði enginn á Íslandi. Ég held að það sé þetta sem er að skila sér.“

Samfylkingin tapaði nokkru fylgi samkvæmt könnuninni og mælist nú með 22,3% eða svipað fylgi og Vinstri græn. Líf bendir á að samt mælist Samfylkingin talsvert betur í borginni en á landsvísu. „Nota bene, þá heldur þessi meirihluti vel með bara þremur flokkum. Ef við horfum á það að meirihlutinn í borginni er með 61,7%, á meðan minnihlutinn er með 33,7% - þá held ég að borgarbúar sjái í gegnum að þennan vonda pólitíska áróður sem er bara til að koma höggi á þá góðu hluti sem við erum að gera, en þau eru ekki samvinnuþýð og þau eru ekki að vinna með. Þau eru ekki að vinna að hagsmunum borgarbúa. Ég held að borgarbúar séu að kalla eftir okkar áherslum, áherslum Vinstri grænna. Svo þegar við fáum fleiri borgarfulltrúa, ef þessi könnun gengur eftir, þá verða borgarbúar enn ánægðari,“ segir Líf.

Vill leiða áfram

Þegar Líf er spurð að því hvort að hún hyggist leiða flokkinn í næstu kosningum segir hún: „Hugur minn stendur til þess að leiða lista VG áfram í borginni. Ég bauð mig fram á sínum tíma til að leiða listann í borginni og ég gerði það þrátt fyrir að brattan væri að sækja, því að þetta er eitthvað sem ég brenn fyrir.

Það fór eins og það fór, það var eitt atkvæði sem skildu okkur af, mig og þáverandi oddvita. Það er alltaf erfitt að taka við hest í miðri á. Þetta hefur ekkert dregið úr mér að vilja leiða listann í borginni áfram. Það er alltaf í höndum félagsmanna að velja. Það er ennþá ár í kosningar svo það verður að koma í ljós hvort að félagsmenn vilji mig,“ segir hún að lokum.