*

mánudagur, 20. ágúst 2018
Innlent 12. október 2017 10:11

Þá háværustu skortir þekkingu á kerfinu

Formaður VM gagnrýnir forystumenn í verkalýðshreyfingunni sem tali af vanþekkingu um lífeyriskerfið.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Guðmundur Ragnarsson formaður VM, félags Vélstjóra og málmtæknimanna segir háværa gagnrýni á lífeyriskerfið endurspegla litla eða enga þekkingu þeirra sem hæst hafi á málefninu.

„Lengi hafa tveir forystumenn í verkalýðshreyfingunni farið fram með mikla gagnrýni á lífeyriskerfið,“ segir Guðmundur á vefsíðu félagsins en í fyrradag héldu þeir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR og Vilhjálmur Birgisson formaður Verkalýðsfélags Akraness fund í Háskólabíó um okurvesti og verðtryggingu sem þeir segja mesta böl þjóðarinnar.

„Ég hef ekki náð samhengi í gagnrýni þeirra hvorki hvað varðar rekstur lífeyriskerfisins né hvernig annað og öðruvísi lífeyriskerfi getur tryggt einstaklingum útgreiðslur eða þá hvernig samtryggingin, sem kerfið byggist á, á að greiða meira til sjóðsfélaga.“

Til að gefa einum þarf að taka af öðrum

Guðmundur segist hafa rekið sig oft á það að þeir sem séu háværastir í gagnrýni sinni á kerfið viti lítið eða ekkert um kerfið, en það sé jafnfamt ekkert nýtt að gagnrýna rekstur þeirra.

„Grunnskilningurinn verður að vera á hreinu á lífeyrissjóðakerfinu, sem er að um leið og farið er að greiða einhverjum meira út úr almenna lífeyrissjóðakerfinu, en viðkomandi hefur lagt til sjóðanna, þá þarf að taka þá peninga af öðrum sem eiga fjármuni þar inni,“ segir Guðmundur.

„Samningur ASÍ og SA um lífeyriskerfið á almenna vinnumarkaðnum er ekkert ósvipað plagg og stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Það hefur verið þróað í um 50 ár. Eign mín í lífeyrissjóðnum mínum er mín eign og því yrði það eignarupptaka ef afhenda á öðrum meira en þeir hafa lagt inn og samþykktir sjóðsins kveða á um í því lýðræðislega formi sem sjóðurinn vinnur eftir í dag.“

Treystir ekki opinberu eftirlaunakerfi

Guðmundur segist aldrei vilja þurf aað treysta á opinbert eftirlaunakerfi að lokinni starfsævi og bendir á að gagnrýni á útgreiðslur úr kerfinu á sér eðlilegar skýringar. „Helstu fórnarlömb hrunsins 2008, gamla fólkið á Íslandi, hafði tapað mestu af sínum inngreiðslum í sinn lífeyrissjóð frá 1968 til 1980, þar til verðtryggingin var sett á en það var gert í óðaverðbólgu,“ segir Guðmundur í greininni.

„Einhver hafði á orði að hann hefði átt fyrir einu lambalæri eftir inngreiðslur í öll þessi ár vegna þess að inneignin brann upp á verðbólgubálinu. Það eru nefnilega tvær hliðar á umræðunni um verðtrygginguna. Hún er ekki bara fyrir þá sem skulda að hafa skoðun á henni, hún er líka fyrir þá sem hafa lagt til hliðar í banka eða lífeyrissjóði og vilja raunvirði innistæðunnar til baka. Stærstu fjármagnseigendur á íslandi eru venjulegt launafólk, það má ekki gleyma því.“