Fisherman er 15 ára gamalt ferðaþjónustufyrirtæki sem starfrækir hótel, kaffihús og veitingahús á Suðureyri ásamt því að sjá um ferðir um bæinn og Vestfirði fyrir ferðamenn, sérstaklega hefur verið mikill vöxtur í þjónustu við þau fjölmörgu skemmtiferðaskip sem koma til Ísafjarðar. Nú hyggst fyrirtækið setja á markað vörur undir merkjum Fisherman, sem unnar eru með ýmsum framleiðendum, aðallega frá Vestfjörðum.

„Við erum sem sagt með vörur sérstaklega fyrir matgæðinga, sem við erum að fara að setja á markaðinn. Við byrjum með harð¬ fisk, sólþurrkuð söl, sjávarsalt og þorskalifur. Svo erum að fara að fara í enn frekari þróun og koma með fleiri vörur,“ segir Ragnheiður sem nýlega tók við sem markaðsstjóri Fisherman, en hún verður með starfsaðstöðu í Sjávarklasanum í Reykjavík.

„Við förum með vörurnar í verslunina Frú Laugu og svona vel valdar aðrar verslanir. Í þeim verður ekkert nema góð hráefni og svo verður pökkunin sérlega skemmtileg, því það eru upplýsingar á innanverðri pakkningunni, þannig að þegar varan er opnuð koma þær í ljós. Við verðum þar með uppskriftir og fróðleiksmola um vörurnar, uppruna vörunnar og hefðir okkar Íslendinga varðandi þessa tilteknu vöru ásamt fróðleik um okkur, fyrirtækið Fisherman,“ segir Ragnheiður.

„Já, þetta er líka hugsað sem skemmtileg gjafavara, eitthvað svona til að taka með sér heim, ef þú ert ekki héðan og sýna fólki, og leyfa því að smakka. Til dæmis eins og harðfiskinn, sem er séríslenskt fyrirbæri að borða sem snakk. Þorskalifrinni fylgir svo uppskrift af mjög góðum rétti sem hægt er að matreiða úr henni og svo framvegis.“

Vörurnar verða einnig seldar í netsölu, en svo er frekari þróun og fleiri tegundir væntanlegar. „Já, við erum að skoða ferskvöru, það er allavega það sem er í bígerð að fara að þróa,“ segir Ragnheiður.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .