Það voru svo margir búnir að fullyrða við mig að það væri ekki hægt að byggja sjálfur, svo við hjónin ákváðum í sameiningu að athuga hvort svo væri,“ segir Eygló Harðardóttir spurð um ástæðu þess að hún valdi að byggja. Einnig segir Eygló að það hafi alltaf verið stór þáttur í menningu Íslendinga að byggja sér hús. „Það var svo í byrjun síðasta árs sem við ákváðum við að láta á þetta reyna og okkar niðurstaða er svo sannarlega sú að það er hægt að byggja sjálfur.“

Vill sjá breytingar
„Þrátt fyrir að okkur hafi tekist þetta þá er ég alveg á því að það mætti vel gera breytingar til þess að auðvelda fólki að byggja, en löggjöfin virðist ekki lengur taka mið af því við að fólk byggi sjálft.“ Ein af þeim breytingum sem Eygló myndi helst vilja sjá er sú að þeir einstaklingar sem eru að byggja sér hús gætu gerst sínir eigin byggingastjórar. Bendir hún á að það hafi til dæmis átt við í Noregi, sem skýrir hátt hlutfall sérbýla þar í landi. „Sé maður sjálfur byggingastjóri þá ber maður vissulega ábyrgð á verkinu og það yrði að vera skýrt hverju maður kæmi helst að og ef eignin væri síðar seld væri kaupandinn upplýstur um það og keypti á þeim forsendum.“

Mörg handtök bak við hvert skref
Spurð um helstu kosti þess að byggja segir Eygló hlæjandi: „Maður uppgötvar fullt af nýjum vöðvum sem maður vissi ekki að væru til, þetta reynir vel á sambandið við makann og svo auðvitað kynnist maður fullt af frábæru fólki í gegnum allt þetta ferli.“ Eygló segist líka bera meiri virð- ingu fyrir faginu eftir að hafa farið í gegnum þetta sjálf. „Maður áttar sig á því hvað eru rosalega mörg handtök á bak við hvert einasta skref og hverja framkvæmd. Sumt hélt maður að tæki enga stund og væri lítið mál en reynist svo gríð- arlega tímafrekt. Við gerðumst alveg sek um það eins og margir aðrir að halda að það tæki stuttan tíma að byggja hús en það gerir það alls ekki.“

Níu mánaða ferli
Eygló og maðurinn hennar keyptu sér lóð í Leirvogstungu í Mosfellsbæ. Þau skoðuðu lóðir í fleiri sveitarfélögum en á þessum tíma var lóðaverð hagkvæmast í Mosfellsbæ svo úr varð að þau keyptu lóð þar. Þeir Jóhann Sigurðsson og Þorleifur Eggertsson hjá Tendra arkitektum teiknuðu húsið en frá því að lóðin var keypt og þar til teikningum var skilað inn liðu níu mánuðir. „Þetta tekur allt tímann sinn og snýr ekki bara að því að arkitektarnir ljúki sinni vinnu. Svo þarf að fá byggingarverkfræðing í sökkla og burðarþol, einhvern sem sér um rafmagnið, hitakerfið, meistara á verkið og fleira. Svo þegar öll okkar gögn voru samþykkt þá gátum við hafist handa.“

Moksturinn algjört lottó
„Fyrsta skrefið eftir að teikningarnar eru samþykktar er svo bara að byrja að moka. Og það getur verið algjört lottó hvort það þurfi að moka mikið eða lítið. Við vorum nokkuð heppin þar á meðan nágrannar okkar þurftu að fara töluvert dýpra niður á fast. Því næst er að slá upp fyrir sökklum en við gerðum það á gamla mátann.“ Eygló og Sigurð- ur keyptu forsmíðað hús frá BYKO og uppsetninguna á því eftir að hafa skoðað vel úrvalið bæði hérlendis og erlendis. Þeim gekk vel að fá iðnaðarmenn þrátt fyrir mikið annríki í faginu og tímasetningar hafa gengið vel eftir. „Við leituðum til fólks í kringum okkur sem hafði reynslu og þekkingu og fengum við ábendingar um góða iðnaðarmenn sem við nýttum okkur.“

Búa í hjólhýsi á lóðinni
Spurð að því hvar í framkvæmdinni þau séu stödd í augnablikinu segir Eygló stolt að þau séu flutt inn á lóðina. Innt eftir frekari útskýringum á því með hvaða hætti þau séu flutt á lóðina segir hún að þau séu nú búin að koma sér fyrir í hjólhýsi á lóðinni. „Við erum sem sagt komin, búslóðin okkar er komin, við fengum salerni um helgina, sjáum fram á að sturtan komi næst, svo að þetta þokast allt í rétta átt,“ segir hún glöð í bragði. Eygló segir þau vera á milli byggingarstiga og sjái fram á að þau komist inn í húsið eftir um það bil mánuð en þá eru liðnir á milli átta og níu mánuðir frá því að fyrsta skóflustungan var tekin. „Við höfum náð að halda tímaplaninu okkar mjög vel en vissulega sjáum við fram á að vinna töluvert áfram í húsinu eftir að við flytjum inn.“

Lánið fylgir framkvæmdinni eftir
„Við erum á framkvæmdaláni sem fylgir í raun eftir framkvæmdinni. Við þurftum vissulega að fara í greiðslumat eins og þegar um venjulegt húsnæðislán er að ræða. En reglan í mínum banka er t.d. sú að þegar húsið er komið á það stig að vera fokhelt þá færðu ákveðið hlutfall af matsvirði eignarinnar sem húsnæðislán og svo endanlega fjármögnun þegar lokaúttektin er komin.“ Eygló segir að þarna væri hún einnig til í að sjá breytingar hjá skipulagsyfirvöldum þess eðlis að hægt væri að áfangaskipta byggingunni fyrir fólk sem er að koma undir sig fótunum. „Það væri þá hægt að byrja á 50 fermetrum og bæta svo við öðrum 50 fermetrum eftir fimm ár, svipað og var gert í gamla smáíbúðahverfinu. En til þess að það gengi upp þyrftu fjármálafyrirtækin að endurskoða sínar lánareglur, því þau stjórna því að miklu leyti hvernig þessi verkefni eru fjármögnuð. Því ef eitthvað fer úrskeiðis er það vissulega bæði fjölskyldan og fjármálafyrirtækið sem situr uppi með höggið.“

Mælir með því að fólk byggi
Myndirðu að lokum mæla með því við aðra að byggja hús? „Svarið er já, ég mæli svo sannarlega með því að fólk byggi sér hús. Eins og fyrr segir tel ég vissulega að það sé hægt að auðvelda fólki ferlið með ýmsum aðgerðum. En út frá þeirri staðreynd að ég starfa sem þingmaður og maðurinn minn sem framhaldsskólakennari þá held ég að við séum gott dæmi um það að það ættu flestir að geta byggt.“

Nánar er fjallað um málið í Fasteignum, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.