Búseti er nú að hefja byggingu á 20 íbúða fjölbýlishúsi við Skógarveg 16 í Fossvogi. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta, tóku í gær fyrstu skóflustunguna að fjölbýlishúsinu en framkvæmdir hefjast á næstu vikum.

Bjarni Þór Þórólfsson, framkvæmdastjóri Búseta segir fjölbýlishúsið henta breiðum hópi fólks sem staðsett sé á glæsilegum stað í Fossvogi. „Það er skortur á íbúðum á höfuðborgarsvæðinu og við erum að leggja okkar af mörkum til að svara þessari eftirspurn,“ segir Bjarni Þór.

„Við finnum þegar fyrir miklum áhuga fólks á íbúðunum jafnvel þótt framkvæmdir séu ekki hafnar og ekki skemmir staðsetningin fyrir, Fossvogurinn er einn eftirsóttasti staður borgarinnar.“ Gert er ráð fyrir að húsið verði tilbúið seinni hluta árs 2019. Í húsinu verða ellefu tveggja herbergja íbúðir og níu þriggja herbergja. Aðalhönnuður er Sigríður Ólafsdóttir arkitekt.

200 íbúðir í byggingu eða á teikniborðinu

Búseti er að klára byggingu 84 íbúða í síðasta áfanga svokallaðs Smiðjuholts, við Þverholt og Einholt, auk 11 raðhúsaíbúða við Ísleifsgötu. Meðal annarra byggingaverkefna sem framundan eru hjá Búseta, auk fjölbýlishússins við Skógarveg, er bygging 78 íbúða við Keilugranda og bygging 72 íbúða við Árskóga.

Þá hefur félagið fengið vilyrði fyrir byggingarétti í Úlfarsárdal og í Bryggjuhverfi þar sem Björgun hefur verið með starfsemi. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri segir bygginguna vera lið í að auka fjölbreytni í borginni. „Verkefnið hér á Skógarvegi er frábært, stutt í skóla, leikskóla og góðar göngu- og hjólaleiðir í þessu gróna og fallega hverfi,“ segir Dagur.

„Búseti er einn af lykilsamstarfsaðilum borgarinnar þegar kemur að uppbyggingu íbúða í Reykjavík sem fjölgar nú jafnt og þétt. Við erum að vinna í sameiningu að því að bjóða upp á íbúðir af öllum stærðum og gerðum í borginni, hvort sem er til leigu, búseturéttar eða kaups.“