Félag atvinnurekenda (FA) segir að ísland eigi ennþá langt í land með að ná markmiðum Evrópustefnu stjórnvalda, en þetta kemur fram í tilkynningu sem birtist á heimasíðu félagsins.

Eins og Viðskiptablaðið greindi frá í gær þá birti Eftirlitsstofnun EFTA (ESA) frammistöðumat ríkja um hvernig þeim gengi við innleiðingu EES-löggjafar. Þrátt fyrir að Ísland standi sig betur þá er það ennþá með hæsta innleiðingarhallann.

FA bendir á að markmið Evrópustefnu ríkisstjórnarinnar sé að ná innleiðingarhalla undir 1% en þar sé ennþá langt í land, en hann stendur í 2,1% samkvæmt nýju frammistöðumati. Auk þess eru ennþá fimm mál gegn Íslandi fyrir EFTA dómstólnum vegna þess að Ísland hafi ekki innleitt EES gerðir í íslenskan landsrétt.

Ólafur Stephensen, framkvæmdastjóri FA segir um málið að „Íslensk fyrirtæki eiga mikið undir því að hér gildi sömu reglur og á stærsta markaðssvæði þeirra, Evrópumarkaðnum. Það er ekki nóg að setja sér góða stefnu, ríkið verður að úthluta fjármunum og mannskap til að fylgja henni eftir. Upp á það vantar ennþá og það er áhyggjuefni fyrir atvinnulífið.“