Guðfinnur Sigurvinsson samskiptastjóri Sýnar staðfestir að fyrirtækið hyggist loka íslensku tónlistarveitunni Tónlist.is um mánaðamótin að því er mbl.is segir frá.

„Vefsvæðið Tónlist.is lokar föstudaginn 1. febrúar 2019. Vinsamlegast nýtið allar inneignir og sækið ósótt lög fyrir þann tíma,“ stendur nú á áberandi borða á síðunni , sem fylgdi með kaupum Fjarskipta á 365 miðlum á síðasta ári.

„Rekstrargrundvöllurinn fyrir þessu var farinn. Það voru sárafáir áskrifendur eftir,“ segir Guðfinnur sem hvetur áskrifendurna til að nýta inneignir sínar fyrir mánaðamót.

Tónlist.is er sagt stærsta safn íslenskrar tónlistar sem völ sé á hér á landi, en þar er einnig erlend tónlist. Síðan hefur reynt að selja og kynna íslenska tónlist erlendis, en ætla má að Spotify og aðrar erlendar tónlistarveitur hafi verið erfiður keppinautur.