Þegar Landsbankinn hóf innheimtuaðgerðir gagnvart ábyrgðarmanni var krafan fallin niður sökum fyrningar en tveggja ára fyrningarfrestur vegna gjaldþrots gildir bæði um þrotamann og ábyrgðarmann. Þetta kemur fram í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur. Bankinn er talinn hafa nýtt sér aðstöðumun því ábyrgðarmaðurinn var ellilífeyrisþegi um áttrætt, sem enga sérþekkingu hafði á viðskiptum. Landsbankinn hefur áfrýjað til Hæstaréttar Íslands.

Maðurinn sem fór í mál við Landsbankann er ellilífeyrisþegi á um áttrætt. Hann var ábyrgðarmaður á fimm milljóna króna skuldabréfi, sem gefið var út 10. febrúar 2009 og Landsbankinn keypti sama dag. Aðalskuldari bréfsins var tekinn til gjaldþrotaskipta í desember árið 2011 og lauk skiptum í bú hans í mars 2012. Landsbankinn hóf innheimtuaðgerðir á hendur ábyrgðarmanninum í ágúst 2014 og í desember sama ár samþykkti ábyrgðarmaðurinn að gefa út fjögurra milljóna króna skuldabréf til uppgjörs á ábyrgð sinni auk þess að greiða 270 þúsund í lögfræðikostnað vegna innheimtu gamla skuldabréfsins. Í dómnum segir „óumdeilt að útgáfa þess skuldabréfs hafi verið í beinum tengslum við framangreinda ábyrgð stefnanda á fyrra skuldabréfinu."

Í niðurstöðu dóms Héraðsdóms Reykjavíkur er vísað í lög um gjaldþrotaskipti og sagt að með lagabreytingu árið 2010 hafi verið „ákveðið að fyrningartími allra krafna sem lýst sé í þrotabú verði sá sami án tillits til þess um hvers konar kröfu sé að ræða og er sá tími tvö ár."  Fyrningu krafna verði aðeins slitið með því að kröfuhafi, í þessu tilfelli Landsbankinn, höfði mál á hendur þrotamanninum innan fyrningarfrestsins og fái dóm um viðurkenningu á fyrningarslitum. Þetta gerði Landsbankinn ekki og segir í dómnum að fyrningarfrestur gagnvart ábyrgðarmanninum reiknist efir sömu reglum.

Aðstöðumunur

Í dómnum er ennfremur komið inn á aðstöðumun stefnandans eða ábyrgðarmannsins og Landsbankans, sem var hinn stefndi í þessu máli. "Allt að einu gekkst stefnandi undir skuldbindingu til uppgjörs á ábyrgð, sem hann hélt að væri í fullu gildi. Stefnandi er ellilífeyrisþegi um áttrætt, sem ekki er vitað að hafi neina sérstaka þekkingu á viðskiptum af þessu tagi en stefndi er fjármálafyrirtæki, sem starfar á grundvelli opinbers leyfis og hefur sérfræðinga á því sviði á sínum snærum. Verður því að gera ríkar kröfur til stefnda um vönduð vinnubrögð við lánveitinguna."

Héraðsdómur ógilti fjögurra milljóna króna skuldabréfið og dæmdi Landsbankann til að greiða áttræða ábyrgðarmanninum tæplega 516 þúsund krónur, sem er sú fjárhæð sem maðurinn hafði greitt af skuldabréfinu. Enn fremur er bankanum gert að greiða 800 þúsund í málskostnað.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð