Varkárni einkennir umfjöllun grásleppuveiðimann um komandi vertíð. Óvissa ríkir á mörkuðum og taka þarf mið af því við ákvörðun fjölda veiðidaga og hve mikið ráðlegt sé að framleiða.

Þetta kemur fram í nýjustu Fiskifréttum þar sem rætt er við Örn Pálsson, framkvæmdastjóra Landssambands smábátaeigenda. Í fyrra jafngilti veiðin á grásleppu í heiminum 21.233 tunnum af hrognum. Þar af framleiddu Íslendingar rúmar 12 þúsund tunnur, eða 57% af heildinni.

Bjartsýni ríkti framan af á síðustu vertíð, veiðin var góð og verð á hrognum þokkalegt. Þegar leið á vertíðina kom þó í ljós að ekki náðist að selja allt sem framleitt var og nokkur hundruð tunnur voru eftir óseldar.

Grásleppuvertíðin hefst 20. mars næstkomandi og markaðshorfur eru óvissar. „Þess vegna er ástæða fyrir grásleppukarla að sýna fulla varkárni í því að hefja veiðar. Við brýnum enn og aftur fyrir sjómönnum að fá upplýsingar um magn og verð sem þeir geta treyst út vertíðina,“ sagði Örn Pálsson.

Sjá nánar í nýjustu Fiskifréttum.