Mitt verksvið verður að halda utan um viðhald eignasafns félagsins, en Eik á mikið af eignum sem þarf að viðhalda, breyta og bæta og svo hafa þeir líka verið eitthvað í nýbyggingum,“ segir Pálína spennt fyrir hinu nýja starfi hjá Eik sem hún tekur við í haust.

„Ég er byggingarverkfræðingur, og starfaði sem slíkur fyrstu árin mín hjá Mannviti, og forverum þess, en fljótlega fór ég yfir í hönnunar- og verkefnastjórn. Ég held það sé svolítið þannig að þeir sem séu hæfilega frekir leiðast svolítið út í að stýra fólki, en ég er elst þriggja systkina, svo ég lendi gjarnan í því að ráðskast eitthvað.“

Pálína hefur einnig starfað um tíma sem sviðsstjóri hjá Mannviti, auk þess að sitja í stjórn félagsins og stjórnum tveggja dótturfélaga þess. Pálína útskrifaðist úr Háskóla Íslands með mastersgráðu í byggingarverkfræði en hún tók eina önn í skiptinámi við DTU í Danmörku. Það kom henni töluvert á óvart hve ólíkur andi var í verkfræðináminu milli landanna.

„Það er allt annar hraði þarna úti heldur en maður kynnist hérna heima, þar sem menn eru að allan sólarhringinn. Danirnir eru svolítið góðir í því að hafa það huggulegt, og kom mér á óvart hvað allt var þarna í raun afslappað,“ segir Pálína.

„Þar færðu ekki fólk til að vinna með þér að hópverkefnum eftir klukkan fjögur á daginn eða um helgar, meðan hérna heima var fólk alltaf í skólanum.“

Pálína er gift Gísla Jökli Gíslasyni lögreglumanni og eiga þau þrjár dætur á aldrinum níu til fimmtán ára. Þótt tími hennar utan vinnu fari mest í að sinna fjölskyldunni og vinum hefur hún einnig gaman af því að dunda sér í garðinum. „Svo finnst mér gaman að alls kyns útivist, gönguferðum og að fara út að skokka,“ segir Pálína sem lætur rigninguna ekki stöðva sig.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta gerst áskrifendur hér .