*

þriðjudagur, 19. júní 2018
Erlent 18. apríl 2017 14:15

Þarf aukinn meirihluta

Það er ekki lengur eingöngu í valdi forsætisráðherra Bretlands að boða til kosninga.

Ritstjórn
epa

Eins og fram hefur komið í fréttum boðaði Theresa May forsætisráðherra Bretlands óvænt til þingkosninga í landinu í morgun, en á sunnudag sýndu skoðanakannanir að Íhaldsflokkurinn var með nálega tvöfaldan stuðning á við næst stærsta flokkinn, Verkamannaflokkinn.

Verða kosningarnar 8. júní næstkomandi, einungis rétt rúmum tveimur árum eftir síðustu kosningar er íhaldsflokkurinn vann 330 sæti af 650 sætum í þinginu.

Gætu bætt við sig 51 þingsæti

Í Bretlandi er kosið í einmenningskjördæmum svo 44% stuðningur við Íhaldsflokkinn gæti þýtt miðað við dreifingu annarra atkvæða að flokkurinn bæti við sig um 51 sæti miðað við útreikninga Electoral Calculus.

Yrði þá Íhaldsflokkurinn með 381 þingsæti og þá meirihluta upp á 112 þingsæti.

Getur ekki lengur rofið þing upp á sitt einsdæmi

Ólíkt því sem var þó fyrir 2011 hefur forsætisráðherrann ekki lengur eingöngu það vald að boða til nýrra kosninga, heldur þurfa tveir af hverjum þremur þingmönnum á breska þinginu að samþykkja þingsályktunartillögu þessa efnis. Eða að einfaldur meirihluti samþykki vantraust á forsætisráðherrann.

Var samið um þessar reglur í kjölfar ríkisstjórnarsamstarfs Íhaldsflokksins og Frjálslyndra demókrata í fyrri ríkisstjórn David Cameron.

Eins og Viðskiptablaðið hefur þó fjallað um hafa forystumenn stjórnarandstöðuflokkanna þó flestir fagnað boðuðum kosningum, svo vænta má að ekki verði vandamál að fá samþykki aukins meirihluta þingmanna fyrir boðuðum kosningum.