Með tilkomu nýs tækis tækis er gamalgróið vandamál úr sögunni við að setja nýja togvíra á tromlurnar á togspilum. Sjómenn þekkja það vel að stundum tekur nokkra daga til að fá vírana til að sitja rétt undir hentugu álagi og sjaldnast hefur gefist nema eitt tækifæri til að fá allt til að ganga upp. Með tilkomu hins nýja vírastrekkitækis Hampiðjunnar er staðan gjörbreytt.

Hampiðjan greinir frá því að tækið hefur verið notað í Vestmannaeyjum um skeið og reynst vel þegar togbátar Eyjamanna hafa þurft á nýjum togvír að halda.

Að sögn Árna Skúlasonar framleiðslustjóra, var ljóst að endurbæta þyrfti vírastrekkitækið til þess að það nýttist einnig stærri togurum.

„Af hálfu Hampiðjunnar var lögð mikil vinna og kostnaður í að endurbæta vírastrekkitækið til að það réði við stærri verkefni. Tækifærið til að reyna búnaðinn kom á dögunum þegar hinn nýi og glæsilegi togari HB Granda, Akurey AK, kom til að taka nýja togvíra.”

Jökuldýpið var vinsælt

Að sögn Eiríks Jónssonar, skipstjóra á Akurey, er ekki hægt að bera þetta saman við hvernig togvírar hafa verið settir inn á tromlur í áranna rás. Gamla lagið var fólgið í því að vírarnir voru teknir af kefli á hafnarbakkanum og oftast voru lyftarar fengnir til að vera með þunga ofan á vírunum til að hægt væri að draga þá inn á togspilstromlurnar undir einhvers konar álagi.

„Áður en veiðar gátu hafist þá þurfti að strekkja vírinn upp á nýtt úti á sjó. Jökuldýpið var vinsælt til þess. Oft settum við lóð í endana á togvírunum og slökuðum öllu út. Svo voru vírarnir teknir inn undir álagi frá lóðunum, eigin þunga og viðnáms frá sjónum og þess var gætt að þeir röðuðust sem réttast inn á tromlurnar,“ segir Eiríkur.