128 umsóknir bárust í Startup Tourism, viðskiptahraðal á sviði ferðaþjónustu, sem er 13% fjölgun milli ára, en hraðallinn verður haldinn í fjórða sinn nú í janúar. Úr þeim voru 10 fyrirtæki valin, en tilkynnt var um þau í dag.

Óskað var eftir lausnum sem „gætu fjölgað afþreyingarmöguleikum í ferðaþjónustu á Íslandi, styrkt innviði greinarinnar og stuðlað að dreifingu ferðamanna um allt land, allan ársins hring.“

Af umsækjendunum 128 voru 29 teknir í viðtöl, og dómnefnd valdi síðan hina endanlegu 10, en samkvæmt fulltrúa nefndarinnar einkenndust umsóknirnar í ár af skapandi afþreyingarlausnum og sterkum tæknilausnum.

Í fyrsta sinn í sögu hraðalsins vinnur helmingur hópsins að tæknilausnum á sviði ferðaþjónustu á meðan hinn helmingurinn einbeitir sér að nýjum eða betri afþreyingarmöguleikum. Hópurinn á það sameiginlegt að þjónusta ferðamenn víðsvegar um landið og teygja sum fyrirtækjanna starfsemi sína út fyrir landsteinana.

Hraðallinn hefst þann 14. janúar næstkomandi. Eftirtaldin tíu fyrirtæki taka þátt í Startup Tourism árið 2018:

1. BusTravel IT
Hugbúnaðarlausn sem eykur ánægju viðskiptavina og skilvirkni í rekstri

2. Film Iceland
Stafrænn ferðavísir sem gægist bakvið tjöldin á kvikmyndatökustöðum landsins

3. GeoGardens
Samræktargróðurhús og veitingastaður á Hellisheiði

4. HandPicked Iceland
Leiðarvísir með ekta íslenskum upplifunum sem stuðla að grænni ferðamennsku

5. Iceland Bike Farm
Fjallahjólreiðar og einstök upplifun hjá hjólabændunum í Mörtungu

6. Iceland Outfitters
Faglegar og vinalegar veiðiferðir

7. Iceland Sports Travel
Sérhæfð íþróttaferðaskrifstofa með áherslu á ferðir íþróttahópa til Íslands

8. Selfie Station
Myndaupplifun við helstu kennileiti Íslands

9. Venture North
Ferðaþjónusta á Norðurlandi sem býður upp á ævintýraferðir á róðrabrettum

10. Wapp-Walking app
Leiðsagnarapp með fjölbreyttum leiðarlýsingum um allt land

„Það er verulega ánægjulegt að sjá að umsóknarfjöldi í Startup Tourism heldur áfram að vaxa þó það hægist á fjölgun ferðamanna. Frumkvöðlar í ferðaþjónustu eru greinilega ekki af baki dottnir og halda áfram að fá góðar hugmyndir til að styrkja ferðaþjónustu í landinu. Startup Tourism er frábær vettvangur til að þróa áfram hugmyndir að nýjum lausnum og sömuleiðis fyrir starfandi fyrirtæki sem vantar aðstoð við að taka næsta skref í rekstri. Hér vinnum við hratt og í krafti fjöldans en fyrirtækin munu vinna náið saman á jafningjagrundvelli og hitta fjöldann allan af sérfræðingum á sviði nýsköpunar og ferðaþjónustu.“ er haft eftir Svövu Björk Ólafsdóttur, verkefnastjóra Startup Tourism í tilkynningunni.