*

mánudagur, 21. janúar 2019
Innlent 13. júní 2018 09:45

Þau vilja verða forstjóri Sjúkratrygginga

Ellefu manns hafa sótt um starf forstjóra Sjúkratrygginga en umsóknarfrestur rann út þann 10. júní síðastliðinn.

Ritstjórn
Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra
Haraldur Guðjónsson

Ellefu sóttu um embætti forstjóra Sjúkratrygginga Íslands sem auglýst var laust til umsóknar 18. maí síðastliðinn. Heilbrigðisráðherra mun skipa í stöðuna frá 1. nóvember 2018 til fimm ára að fenginni tillögu stjórnar Sjúkratrygginga Íslands, líkt og kveðið er á um í lögum um sjúkratryggingar.

Í 7. gr. laganna er kveðið á um skipun forstjóra, verkefni og ábyrgð. Forstjóri skal hafa lokið námi á háskólastigi og búa yfir reynslu af reskstri og stjórnun sem nýtist í starfi. Forstjóri ræður aðra starfsmenn stofnunarinnar og annast daglegan rekstur hennar. Forstjóri ber ábyrgð á því að sjúkratryggingastofnunin starfi í samræmi við lög, stjórnvaldsfyrirmæli og erindisbréf. Forstjóri ber ábyrgð á starfsemi stofnunarinnar og á því að rekstrarútgjöld og rekstrarafkoma sé í samræmi við fjárlög og að fjármunir séu nýttir á árangursríkan hátt.

Frestur til að sækja um embættið rann út 10. júní. Umsækjendur um embættið eru eftirtaldir:

 1. Berglind Ólafsdóttir, áfengis- og fíkniefnaráðgjafi
 2. Guðrún Ingibjörg Gylfadóttir, formaður
 3. Hrannar Björn Arnarsson, framkvæmdastjóri
 4. Huld Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri
 5. Ingunn Björnsdóttir, dósent
 6. María Heimisdóttir, framkvæmdastjóri
 7. Ragnar Magnús Gunnarsson, sviðsstjóri
 8. Sigríður Haraldsdóttir, sviðsstjóri
 9. Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir, dósent
 10. Þorvaldur Ingi Jónsson, þróunarstjóri
 11. Þröstur Óskarsson, deildarstjóri