François Hollande Frakklandsforseti kynnti í dag tillögur um miklar skattahækkanir. Hollande, sem er fyrsti sósíalistinn á forsetastóli í 17 ár, sagði að hækkanirnar myndu skila 20 milljónum evra á ári, 3.000 milljarða króna.

Forsetinn kynnti einnig að skorið verði niður sem nemur 10 milljörðum evra í ár og útgjöldin ekki aukin milli ára.

Hollande staðfesti að lagður yrði á 75% skattur á þá sem hafa yfir eina milljón evra í árstekjur. Sagði hann að mögulega yrði skatturinn aðeins lagður á í tvö ár.

Hollande sagði í sjónvarpsviðtali að hann ætli sér tvö ár til að rétta efnahag landsins við. Hann sagði að hagvöxtur verði nánast enginn í ár og 0,8% á næsta ári.

Þegar eru margir efnamenn fluttir úr landi

„Margir eru þegar farnir" segir Arnaud Jamin skattalögfræðingur hjá lögfræðistofunni Fidal Associés í París í samtali við Wall Street Journal um tekjuháa einstaklinga, en Frakklandsforseti gaf kosningaloforð í vor að skattar á tekjuháa myndu hækka.

Viðskiptablaðið sagði frá því gær að Bernard Arnault, sem er ríkasti Frakkinn, hefði óskað eftir ríkisborgararétti í Belgíu. Arnault neitar því þó að þetta tengist skattamálum sínum.