2001. Fyrsta árið á nýju árþúsundi byrjaði vel: Vísindamenn tilkynntu að í fyrsta skipti hefði tekist að klóna spendýr í útrýmingarhættu, og 15. janúar var Wikipedia opnuð almenningi. Fimm dögum síðar sór George W. Bush embættiseið í Washington. Þetta var líka árið sem Tony Blair var endurkjörinn forsætisráðherra Breta og Berlusconi sigraði í kosningum á Ítalíu.

Þetta var líka árið sem Enron fór á hausinn í stærsta gjaldþroti Bandaríkjanna fram til þess tíma, Timothy McVeigh var tekinn af lífi, og rússneska geimstöðin Mir var send til hvílu á botni Kyrrahafsins eftir fimmtán ára ferð um víðáttur geimsins. Hollendingar brutu í blað í sögunni þegar þeir leyfðu hjónabönd samkynhneigðra, en í Nepal gekk krónprinsinn berserksgang og brytjaði niður konungsfjölskylduna með hríðskotabyssu, féll þar kóngurinn faðir hans, móðir hans og fleiri skyldmenni.

Til að mynda í Vestur-Evrópu...

Um árið 2001 á Íslandi hefur Wikipedia þetta eitt að segja: Smáralind opnaði 10. október. En þetta var árið sem Davíð Oddsson hafði setið óslitið sem forsætisráðherra í áratug, og á honum var hreint ekkert fararsnið. Halldór Ásgrímsson var utanríkisráðherra. Sjálfstæðisflokkur og Framsókn höfðu setið að völdum í sex ár og áttu önnur sex eftir. Steingrímur var formaður VG og Össur formaður Samfylkingarinnar, báðir voru flokkarnir tveggja ára, og framundan voru enn fleiri ár í stjórnarandstöðu.

Að morgni 11. september 2001 tókst 19 liðsmönnum al-Qaeda að ræna fjórum farþegaflugvélum. Tveimur var stefnt á tvíburaturnana í New York, einni á Pentagon, en sú fjórða hrapaði í Pennsylvaníu. Um þrjú þúsund óbreyttir borgarar fórust. Þetta var heljarhögg fyrir Bandaríkjamenn, sem töldu sig örugga á heimavelli. Afleiðingarnar eru hvarvetna, og við lifum nú í þeim heimi sem varð til í kjölfar árásar Osama bin Laden og félaga á Bandaríkin.

Daginn eftir árásirnar mæltist Davíð Oddssyni spámannlega í viðtali við Morgunblaðið: ,,Það mun taka langan tíma að skapa öryggiskennd með þjóðum vestrænna ríkja, vegna þess að þegar menn sjá að þetta er hægt í Bandaríkjunum, þá er hætt við því að annars staðar, til að mynda í Vestur-Evrópu, gætu menn hugsað sér gott til glóðarinnar. Þessir atburðir vekja mikinn óhugnað og viðbjóð.”

,,Ný ógn við líf okkar”

Sannarlega hefur ,,öryggiskennd” í heiminum sjaldan verið á jafn lágu stigi. Bandaríkjamenn réðust inn í Afganistan til að hefna fyrir 11. september, og þar eru þeir ennþá. Stríðið í Afganistan hefur kostað Bandaríkjamenn meiri tíma en tvær heimsstyrjaldir. Kostnaður við stríðsrekstur Bandaríkjanna síðasta áratuginn er 13 stafa tala. Í dollurum.

Stríðið gegn hryðjuverkum er ekki bara háð í afdölum í Afganistan. Ógnin hefur grafið sig djúpt í vitund jarðarbúa. Össur Skarphéðinsson orðaði þetta svo í viðtali við Morgunblaðið 12. september 2011: ,,Það er komin fram ný ógnun við líf okkar,sem erfitt virðist vera að ráða niðurlögum á eins og sakir standa, hvað sem síðar verður. Menn eru ekki óhultir og eru fullir kvíða og ótta. Ég held að ógnunin sem menn hafa áður haft af skipulögðum hernaði fölni andspænis þessu.“

Árið 2001 voru nýjar víglínur dregnar. Tómarúmið sem skapaðist við lok kalda stríðsins var fyllt með trúarofstæki. Nýir keppendur voru sestir að tafli við Bandaríkin. Vestur og austur, kristni og íslam. Allt í einu voru þrjúþúsund ára gamlar bókmenntir frá Miðausturlöndum orðnar grundvöllur að tvískiptingu heimsins. Áratugur öfga og ótta fór í hönd.