Alls eru nú 1.426 einstaklingar í heiminum sem náð hafa því takmarki að eiga að minnsta kosti einn milljarð bandaríkjadala í hreina eign, eða andvirði um 125 milljarða króna. Bandaríska tímaritið Forbes tekur saman listann ár hvert og í ár bættust 210 nýir milljarðamæringar á listann. Hrein eign þessara 1.426 einstaklinga er um 5.400 milljarðar dala, en í fyrra námu eignirnar 4.600 milljörðum dala.

Mexíkóski auðjöfurinn Carlos Slim er enn á ný ríkasti maður heims með 73 milljarða dala í hreinar eignir. Bill Gates, stofnandi Microsoft er í öðru sæti með 67 milljarða dala og Amancio Ortega, meirihlutaeigandi fataverslanakeðjunnar Zara, er í því þriðja með 57 milljarða dala. Hann er einnig hástökkvari ársins því eignir hans jukust um eina 19,5 milljarða dala á árinu. Fjárfestirinn Warren Buffett verður að láta sér fjórða sætið nægja með 53,5 milljarða dala, en þetta er í fyrsta skipti frá árinu 2000 sem Buffett er ekki í einu af toppsætunum þremur.

Bandaríkin eiga flesta milljarðamæringa eða 442. Næst á eftir er Asía og Kyrrahafssvæðið með 386 milljarðamæringa, Evrópa með 366 milljarðamæringa, Ameríka utan Bandaríkjanna með 129 milljarðamæringa og Miðausturlönd og Afríka með 103.